135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir miklu þingreyndari en ég en fyrir mér lítur þetta þannig út að frumvarpið sjálft geri ráð fyrir jafnræði að þessu leyti í frumvarpstextanum. Þar segir að alþingismanni sé heimilt að ráða sér aðstoðarmann eftir nánari reglum sem forsætisnefnd Alþingis setur. Ég geri ráð fyrir að flutningsmenn frumvarpsins reikni með því að forsætisnefnd setji þær reglur í samræmi við venjur og reglur í stjórnsýslunni og hafi í heiðri grundvallarreglur stjórnarskrárinnar við það þó að í greinargerðinni hafi meiri hluti allsherjarnefndar sýnilega skriplað á skötunni gagnvart því, að áliti hv. þm. Jóns Magnússonar, að áliti hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og að mínu áliti, að þetta kunni að stangast á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ráð meiri hluta allsherjarnefndar í þessu efni hefðu átt að vera þau að taka það skýrt fram í nefndaráliti sínu, sem síðan yrði staðfest með meiri hluta atkvæða hér að forsætisnefnd hefði ekki — ekki, hæstv. forseti — leyfi til að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mismuna þingmönnum, og kjósendum, eftir því úr hvaða kjördæmi þeir eru kosnir. Það gerir meiri hluti allsherjarnefndar ekki heldur ætlar hann að leysa málið með þeim hætti að láta Alþingi samþykkja sérstaka heimild til forsætisnefndar um að ganga í berhögg við þessa ágætu jafnræðisreglu í stjórnarskránni.

Samkvæmt mínum skilningi getur þingið ekki gert það, stjórnarskrárgjafinn er æðri en þingið og þingið getur ekki sett lög sem brjóta stjórnarskrána. Ef það gerir það verður því hált á því fyrr eða síðar. Það er þetta sem ég geri kröfu um að meiri hluti allsherjarnefndar og meiri hluti Alþingis og raunar allir alþingismenn virði.