135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:20]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alla vega ljóst að meiri hluti allsherjarnefndar telur að frumvarpið brjóti ekki í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og sérstaklega er sett inn tillaga til að hafa það algjörlega skýrt að forsætisnefndin getur valið úr, t.d. að heimildin nái til þingmanna landsbyggðarkjördæma eins og til stendur. (Gripið fram í.) Það er okkar mat að þetta standist algjörlega.

Ég get líka bent á að ýmsar greiðslur til þingmanna á landsbyggðinni fara ekki til þingmanna á höfuðborgarsvæðinu en auðvitað er kostnaður þar á móti, bílastyrkir, styrkir til búsetu o.s.frv., sem er ósköp eðlilegt. Við teljum því að þetta standist algjörlega. Við tökum það hins vegar inn í nefndarálit okkar að við teljum að þetta sé bara fyrsta skrefið og það var líka staðfest í ræðu virðulegs forseta við 1. umr. málsins, þetta er fyrsta skrefið. Meiri hlutinn í nefndinni vill — og ég veit að þeir sem ekki eru í meiri hlutanum, hv. þm. Jón Magnússon þar á meðal, telja að það sé mjög til bóta — að kerfið nái til þingmanna á höfuðborgarsvæðinu líka og unnið verði að því í fjárlagagerð næsta árs.

Af því að hv. þm. Mörður Árnason er í Samfylkingunni vil ég taka fram að fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd er á meirihlutaálitinu. Það er því alveg skýrt hjá meiri hlutanum að málið stenst og það hefur batnað í meðförum allsherjarnefndar.