135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:22]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það hefur oft áður komið fram hér úr ræðustóli Alþings að tiltekið frumvarp sem er til umræðu brjóti í bága við stjórnarskrá, ýmis ákvæði hennar svo sem fullveldisákvæði eða jafnræðisreglu. Skýrasta dæmið er auðvitað EES-samningurinn sem var samþykktur fyrir 14 árum eða svo. Þá voru margir á þeirri skoðun að í honum fælist of mikið framsal til yfirþjóðlegra stofnana, að það samrýmdist ekki stjórnarskránni. Engu að síður er samningurinn lög og hefur verið það alla tíð. Enginn hefur látið á það reyna hvort það mat er rétt eða ekki.

Staðreyndin er sú að Alþingi metur sjálft hvað það telur standast stjórnarskrá eða ekki og þingmenn verða einfaldlega að gera það upp við sig og greiða atkvæði samkvæmt því. Síðan er möguleiki á að fara með það fyrir dómstóla ef menn telja ástæðu til. Ég er á þeirri skoðun að ásakanir um að það mál sem hér er til umræðu brjóti í bága við jafnræðisreglur stjórnarskrárinnar séu út í hött, séu fráleitar og eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Það að aðstaða þingmanna sé mismunandi felur ekki í sér brot á jafnræðisreglu. Það hlýtur alltaf að byggjast á hinum breytilegu aðstæðum. En ákvörðunin um breytilegar greiðslur eða aðstöðu byggjast á forsendum sem rökstyðja það.

Áðan var nefnt að ýmsar greiðslur til þingmanna eru breytilega eftir kjördæmum. Það er ekki brot á jafnræðisreglu að mínu mati. Ég hef engan heyrt halda því fram að svo sé. Þær eru rökstuddar með því að aðstæður þingmannanna eru mismunandi eftir kjördæmum og til þess að jafna mismunandi aðstæður eru þær settar á. Jöfnunin sjálf getur ekki verið brot á jafnræðisreglu.

Það á við í þessu máli, um aðstoðarmenn alþingismanna á landsbyggðinni, að það er úrræði til jafna aðstöðu sem varð landsbyggðarþingmönnum í óhag við kjördæmabreytinguna fyrir átta árum. Þess vegna getur það ekki verið brot á jafnræðisreglu að draga úr óhagræði og mismunun sem varð með þeirri ákvörðun. Það er satt að segja fráleitt.

Ég vil aðeins rifja upp forsöguna í þessum efnum til að koma henni að í þessari umræðu. Þegar stjórnarskrárbreytingin var undirbúin var skipuð nefnd sem gerði tillögu um kjördæmabreytinguna. Fyrir henni fór Friðrik Sophusson, fyrrverandi ráðherra, og aðrir í henni voru Geir H. Haarde, Valgerður Sverrisdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Svavar Gestsson og Guðný Guðbjörnsdóttir, allt saman þingmenn á þeim tíma. Þau skiluðu af sér skýrslu með tillögum og sögðu í þeirri skýrslu að helstu röksemdir gegn því að stækka landsbyggðarkjördæmin, sem var tillaga nefndarinnar, að sameina landsbyggðarkjördæmi og fækka þingmönnum landsbyggðarinnar, væru að stækkun kjördæmanna ylli því að erfiðara yrði að halda uppi persónulegum samskiptum milli þingmanna og kjósenda.

Breytingin gerði aðstæðurnar þyngri fyrir landsbyggðarþingmenn með því að sameina kjördæmi sem áður voru þrjú, Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra, í eitt kjördæmi. Áður voru í þeim 15 þingmenn en eftir breytinguna var lagt til að þeir yrðu 10. Hver þingmaður hafði því stærra svæði og fleiri kjósendum að sinna en áður. Álagið í starfi þeirra jókst.

Hið sama gilti um Norðausturkjördæmið sem var að meginhluta sameinað úr Norðurlandi eystra og Austurlandi. Suðurkjördæmi varð til úr Suðurlandi, Suðurnesjum, sem voru hluti af Reykjaneskjördæmi og hluta af Austurlandskjördæmi í Austur-Skaftafellssýslu. Hins vegar var kjördæmið á höfuðborgarsvæðinu minnkað þannig að þingmenn sem voru þingmenn Reykjaneskjördæmis og urðu þingmenn Suðvesturkjördæmis höfðu minna starfssvæði, færri kjósendum að sinna. Hið sama gerðist hjá þeim sem höfðu verið þingmenn Reykjavíkur. Það var líka verið að minnka hjá þeim vegna þess að Reykjavík var skipt í tvennt.

Þannig að breytingin varð sú að starfið þyngdist og starfsskyldur hjá þingmönnum landsbyggðarkjördæma en þær minnkaðar á þingmönnum höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna ræddu menn þessa hluti. Það kemur einmitt fram í tillögum þessarar nefndar sem ég minntist á, um starfsaðstöðu þingmanna, ég vil leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta:

„Verði tillögur nefndarinnar að lögum er ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verður önnur en áður. Með hliðsjón af því hvetur nefndin til að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, t.d. þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.“

Þetta var tillaga nefndar þessara alþingismanna og enginn þeirra hélt því fram, svo mig reki minni til, að þessi tillaga væri brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Skipuð var önnur nefnd til að útfæra þær hugmyndir sem nefndin setti fram undir forustu Friðriks Sophussonar. Í henni voru Einar K. Guðfinnsson, sem var formaður, Tómas Ingi Olrich, Magnús Stefánsson, Kristján L. Möller, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir — allt þáverandi þingmenn eða verðandi þingmenn, skulum við segja. Nefndin gerði tilraun til að útfæra hugmyndir nefndar Friðriks Sophussonar og lagði til sérstakar tillögur um starfsaðstöðu þingmanna, að hinum 30 þingmönnum landsbyggðarkjördæmanna yrði lögð til vinnuaðstaða í kjördæmunum og að þeir gætu ráðið til sín starfsmenn samkvæmt eftirfarandi reglum, með leyfi forseta:

„Fyrir hvern einn þingmann hvers stjórnmálaflokks í kjördæmi komi einn starfsmaður. Fyrir hvern þingmann umfram einn komi hálfur starfsmaður. Nánara fyrirkomulag verði í höndum þingmanna.“

Tillaga nefndarinnar var um aðstoðarmenn fyrir þingmenn en tillaga forsætisnefndar núna nemur ekki nema um helmingi af þeim stöðugildum sem nefndin undir forustu Einars K. Guðfinnssonar lagði til. Nefndin lagði enn fremur til að um ráðningu, kjör og starfsaðstæður þessara aðstoðarmanna giltu eftirfarandi reglur, með leyfi forseta:

„Starfsmennirnir eru ráðnir af þingmönnum hvers flokks í hverju kjördæmi og hafi aðsetur þar sem þingmennirnir ákveða. Laun aðstoðarmanna verði greidd af skrifstofu Alþingis og þeir njóti sömu réttinda og starfsmenn þingsins, hafi aðgang að þjónustu skrifstofunnar eins og aðrir starfsmenn þingsins. Starfsaðstaða, rekstrarkostnaður svo sem sími, ferðakostnaður og fleira verði greitt eftir ákveðnum reglum sem forsætisnefnd og formenn þingflokka ákveða.

Nefndin hvetur til þess að aðstoðarmennirnir verði fólk með góða menntun, geti starfað sjálfstætt, til að mynda gert drög að þingmálum og þingræðum.“

Í niðurlagi tillagna þessarar nefndar segir, með leyfi forseta:

„Þannig má segja að í senn sé verið að bæta starfsaðstöðu þingmanna á landsbyggðinni, treysta samband þingmanna og kjósenda og efla starfsemi þingflokkanna.“

Þetta eru alveg skýrar tillögur sem komu fram í samstarfi og samkomulagi milli allra flokka. Þeir flokkar sem ekki standa að því núna að samþykkja þetta frumvarp sem við ræðum muna eftir því hverjir lögðu þetta til. Þetta er eðlilegt, þegar þingmenn þjóna mjög víðfeðmu landsvæði þar sem fólk býr í mörgum þéttbýliskjörnum og starfsskyldur þeirra felast í að mæta á ráðstefnur, fundi og atburði í kjördæminu, þá komast menn ekki yfir það. Þess vegna er þetta komið til. Tíminn sem fer í ferðalög, til að vera við einstaka atburði á mörgum stöðum í kjördæminu er tekinn frá annarri vinnu sem þingmaðurinn þarf að sinna, t.d. undirbúningi mála. Þess vegna er lagt er til að aðstoðarmennirnir hafi möguleika á að bæta úr þessu. Þetta sem er ástæðan fyrir tillögum um aðstoðarmenn þingmanna dreifbýliskjördæma.

Ef menn ætla sér, sem mér finnst ekki óeðlilegt, að útfæra þessa hugmynd yfir alla þingmenn Alþingis þá verða menn samt alltaf að hafa í huga að mismunandi aðstaða er áfram fyrir hendi. Ef svo fer í næsta skrefi að samþykkt verður að ráða aðstoðarmenn fyrir þingmenn á höfuðborgarsvæðinu, segjum t.d. í hálfu starfi, þá ættu þingmenn dreifbýliskjördæmanna að hafa það hálfa starf plús þann þriðjung sem hér er lagt til, vegna mismunar á starfsaðstöðu þeirra. Hann er áfram fyrir hendi.

Það var ekki deilt um þetta á Alþingi á þessum tíma, hvorki út frá stjórnarskránni né efnislega vegna þess að allir stjórnmálaflokkar stóðu að þessum tillögum, þar á meðal hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Í umræðum í þinginu um stjórnarskrárbreytinguna og kjördæmabreytinguna var einn þingmaður sem fann að því að fækka þingmönnum landsbyggðarinnar í staðinn fyrir að bjóða þeim aðstoðarmenn og taldi að það ekki nógu góð býtti. Hann taldi betra að hafa þingmenn dreifbýlisins jafnmarga og þeir þá voru en það sem í boði var. Í andsvari við þann þingmann sem þáverandi forsætisráðherra fór í, Davíð Oddsson, segir ráðherra, með leyfi forseta:

„Mér finnst nú satt best að segja dálítið undarlegt af landsbyggðarþingmanni að finna að því að verið sé að auka aðstoð við þingmenn úti á landi. Þingmenn hafa fengið á undanförnum 20 árum, frá því að ég var þingfréttaritari hér uppi, gríðarlega aukna aðstoð. Ekki einn mann, ekki tíu menn heldur tugi manna, kannski 60–70 manns sem aðstoða þingmenn hér — með einum eða öðrum hætti eins og sagt er — sem ekki var áður. Og þeir eru allir staðsettir í Reykjavík.

Síðan kemur þessi ágæti landsbyggðarþingmaður, sem ég ber virðingu fyrir, og finnur að því að eitthvað af slíkri aukinni aðstoð, sem er auðvitað að aukast eins og við höfum séð, verði staðsett fyrir þingmenn úti á landi. Ég sem þingmaður Reykvíkinga sé ekki ofsjónum yfir því.“

Þetta sagði þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og þingmaður Reykvíkinga. Þannig að það var ekki deilt um þetta. Það var ekki deilt um þetta efnislega. Þvert á móti var samkomulag um þetta.

Eftir þingkosningarnar 1999 var kjördæmabreytingin staðfest og í framhaldinu sett ný lög um kosningar til Alþingis, sem eðlilega þurfti að gera. Sérstök nefnd gerði tillögur um þá kosningalagabreytingu. Sú nefnd var undir forustu núverandi hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haardes, og aðrir í nefndinni voru hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon. Í skilabréfi þeirrar nefndar, sem er dagsett 27. mars árið 2000, segir í lok bréfsins, með leyfi forseta:

„Í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun kjördæmaskipunar og tilhögun kosninga til Alþingis skipuðu þér nefnd undir forustu Einars K. Guðfinnssonar alþingismanns til þess að fjalla um aðgerðir til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni og um starfsaðstöðu þingmanna þar. Nefnd þessi undir forustu Einars hefur skilað tillögum þar sem ýmsum aðgerðum í þessu skyni er forgangsraðað. Nefndin“ — þ.e. nefnd Geirs H. Haardes — „leggur ríka áherslu á að tillögum þessum verði fylgt eftir og þeim hrint í framkvæmd á skipulegan hátt.“

Þannig er forsaga málsins, virðulegi forseti. Mér finnst að menn mættu gjarnan kynna sér hana áður en þeir fella þunga dóma um ósanngirni í garð þingmanna á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa helst fundið þessu máli eitthvað til foráttu mættu gjarnan kynna sér forsögu málsins áður en þeir segja nokkuð frekar um þessi mál í líkingu við það sem hér hefur verið sagt. Hér hefur ýmislegt verið sagt sem mér finnst mjög ómaklegt og ekki rétt.

Því hefur verið haldið fram að brotið yrði gegn jafnræðisreglu. Því hefur verið haldið fram að með frumvarpinu sé opnað fyrir geðþóttaákvarðanir forsætisnefndar og meiri hluta Alþingis, eins og var tekið til orða. Mér finnst að alþingismenn sem tala þannig um eigin stofnun, um ákvarðanir sem eru teknar hér sem geðþóttaákvarðanir, ættu að hugsa betur það sem þeir að segja áður en þeir láta slík orð frá sér fara.

Það má auðvitað hafa ýmsa skoðun á því sem Alþingi ákveður hverju sinni, t.d. í fjárlögum. En frumvarpið sem hér er til umræðu byggist allt á því sem er ákveðið í fjárlögum síðar varðandi fjárveitingarnar. Einhverjum kann að finnast að það sem Alþingi ákveður í þeim efnum sé ekki rétt. En mér finnst nokkuð langt gengið að halda því fram að það séu geðþóttaákvarðanir.

Þegar menn tala um geðþóttaákvarðanir þá tala menn niður ákvörðunina. Þá er beinlínis sagt að ákvörðunin sé ómálefnaleg og röng, að menn taki eina ákvörðun þegar þessir eiga í hlut en aðra ákvörðun þegar einhverjir aðrir eiga í hlut. Þannig eiga þingmenn ekki að tala nema þeir geti beinlínis fært rök fyrir því. Mér finnst menn ekki bæta sig með svona tali. Það er enginn sem upphefur sjálfan sig með því að tala félaga sína í þinginu niður. Ég leyfi mér að segja það, virðulegi forseti, af því að þetta hefur ítrekað fallið úr ræðustól í umræðu um þetta þingmál. Mér finnst ósanngjarnt að tala um ákvarðanir forsætisnefndar sem geðþóttaákvarðanir.

Því er haldið fram að víðtækt framsal á valdi til forsætisnefndar felist í frumvarpinu. Það má út af fyrir sig segja það. Það er framsal af því að forsætisnefnd er heimilað að taka tilteknar ákvarðanir. Það má kannski hafa skoðun á því hvort það sé víðtækt eða ekki. En það er hins vegar ekki óalgengt. Það eru mörg dæmi um lagasetningu þar sem einstaka aðila er falin heimild til að taka tilteknar ákvarðanir sem mælt er fyrir um hverju sinni. Mér finnst frágangur málsins því ekki í neinu ósamræmi við að sem tíðkast á Alþingi.

Frumvarpstextinn er fremur almennur og skýtur stoðum undir það að hægt sé að ráða aðstoðarmenn fyrir hvern og einn alþingismann. Það er kannski kjarni málsins. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að ósanngjarnt sé að aðstoðarmannakerfi sé bara fyrir landsbyggðarþingmenn geta raunverulega ekki greitt atkvæði gegn þessu máli vegna þess að það heimilar jafnt fyrir þá að ráða aðstoðarmenn. Ef menn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, hvað væru menn þá að segja? Þá segja menn væntanlega að menn vilji yfir höfuð ekki að ráðnir verði aðstoðarmenn. Það er út af fyrir sig sjónarmið. Ég er ekkert að segja að menn geti ekki haft það sjónarmið. En þá er eins gott að menn viti hvað þeir eru að gera athugasemdir við. Þá stendur málið um hvort taka eigi upp þetta kerfi eða ekki.

Þá hefur verið sagt í umræðunni að þjóðþingið standi veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og því sé ekki gott kerfi að hafa þetta svona, að betra sé að hafa þetta einhvern veginn í þá veru að þetta væru starfsmenn þingflokka eða starfsmenn nefndasviðs. Ég er ekki viss um, þótt það sé örugglega hvort tveggja ágætt, að það sé frekar til þess fallið að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held þvert á móti að þessi leið, að styrkja þingmanninn í starfi hans, sem einstakling, sé sterkasta vopnið til að styrkja þingið gegn framkvæmdarvaldinu. Þingmaðurinn á ekkert undir öðrum í þeim efnum með sinn aðstoðarmann. Hann á ekkert undir forustu flokksins. Hann á ekkert undir forustu þingflokksins og enginn getur sett honum stólinn fyrir dyrnar varðandi það að ráða sér aðstoðarmann og sækja sér þessa aðstoð. Þetta styrkir þingmanninn fyrst og fremst. Það finnst mér kannski einn mesti kosturinn við þetta mál.