135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:46]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kann að vera að það séu góð rök fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að Davíð Oddsson hafi sagt þetta og Friðrik Sophusson hafi sagt hitt og ég fagna því auðvitað ef það eru sérstök rök með málinu að samfylkingarmenn hafi verið með í tilteknum meiri hluta eða jafnvel í hópi flutningsmanna.

Það hafa hins vegar ekki, þrátt fyrir tilraunir hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, komið fram málefnaleg rök með því að landsbyggðarmenn þurfi meira á aðstoðarmönnum að halda en áður. Forsætisnefnd hefur lagt til að aðstoðarmennirnir séu bundnir vistarbandi í kjördæmunum. Þeir eiga ekki að hafa starfsaðstöðu hér. Það lýsir þeirri hugsun að þeir eigi að hafa með höndum eitthvert það starf í kjördæmunum sem menn þurfi á að halda.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefnir það hins vegar að aðstoðarmennirnir eigi í raun að vinna þingleg störf meðan þingmennirnir eru að hitta fólk í kjördæmunum þá á þeim forsendum að aðstoðarmaðurinn geti ekki komið í staðinn fyrir þingmann sem er að störfum í kjördæmi enda er það eðlilegt. Ég efast um að kjósendur vilji hitta aðstoðarmanninn. Ég held að þeir vilji hitta þingmanninn sjálfan.

Ef það á að bæta þingmönnunum í landsbyggðarkjördæmunum upp þann mun sem þarna kann að vera á sé ég ekki betur en það eigi að gera það með aukinni aðstoð við þá að geta farið í þessar ferðir og fjarfundarbúnaði og öðrum samskiptamöguleikum fyrir utan að bæta samgöngur almennt og stuðla að betra mannlífi á landsbyggðinni. Ég tel að málefnaleg rök hafi ekki komið fram fyrir þessum þriðjungsmun og þessi rök eru ákaflega mikilvæg vegna þess að þar stendur hnífurinn í jafnræðiskúnni hvað stjórnarskrána varðar og þá er ekki um þessa venjulegu stjórnarskrárdeilu að ræða heldur eðlilega sanngirni (Forseti hringir.) og réttlætistilfinningu meðal almennings í landinu, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.