135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:12]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna andsvars hv. þm. Marðar Árnasonar vil ég segja í fyrsta lagi að ég tel að tími sé kominn til að þingmenn í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum hætti að láta það misrétti yfir sig ganga sem viðgengist hefur í gegnum tíðina. Þess vegna erum við að gera þessar breytingar. Það er fullkomið misrétti sem felst í því að þingmenn sem vinna í þeim kjördæmum þurfi að búa við þær aðstæður sem þeir gera í dag.

Í annan stað styð ég að sjálfsögðu breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar og hef sagt það og sagði það hér áðan að ég tel að við eigum síðan til viðbótar við það sem við erum að gera núna að skapa skilyrði til þess að bæta starfsaðstöðu þingmanna enn frekar og það eigi þá við um alla þingmenn.