135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:16]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki nokkur tök á því að gefa yfirlýsingar um hvaða fjárlagatillögur forsætisnefndin gerir fyrir næsta fjárlagaár. Um það hefur ekki verið fjallað í forsætisnefndinni þannig að hvað það varðar koma tímar og koma ráð. En það hefur komið skýrt fram að ég tel að við eigum að halda áfram að vinna að því að skapa sem besta aðstöðu fyrir þingmenn.

Hv. þingmaður ræddi um mismunandi aðstöðu og spurði hvort ekki væri greiddur ferðakostnaður. Þó það nú væri, segi ég. Ef þingmenn þyrftu að sætta sig við það, þeir sem sitja í Norðurlandaráði eða vinna á vettvangi EFTA o.s.frv. í öllum öðrum alþjóðanefndum sem um er að ræða þyrftu sjálfir að bera kostnað af ferðum sínum þá væri það náttúrlega talið óeðlilegt. Með sama hætti tel ég óeðlilegt að ekki sé viðurkennd sú mismunun sem felst í því fyrir þingmenn að vera annars vegar þingmenn Túngötunnar eða Norður-Þingeyjarsýslu. Allir réttsýnir menn sem ég hef rætt við um þessi mál við fallast á þessi sjónarmið og vilja vera þátttakendur í því að gera þær breytingar sem við erum að gera núna.

Síðan hafa menn bent á ýmislegt sem ég tel að við eigum að ræða. Það er fullkomlega eðlilegt og væri næsta skref á þeirri leið sem við erum á. Þar vísa ég sérstaklega til þess sem m.a. hv. þm. Jón Magnússon hefur nefnt, um að bæta almenna aðstöðu þingmanna.