135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:34]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Ég tek fram að ég styð ekki þessa tillögu hv. þingmanna og ég ætla ekki í máli mínu að fara ítarlega í tæknileg atriði hvað varðar áhættumat, enda enginn sérfræðingur á því sviði og gef mig ekki út fyrir að vera það.

Ég vil hins vegar ræða þetta aðeins út frá öðru sjónarmiði. Mér finnst tónninn í þessari tillögu fela í sér ákveðið yfirlæti og vanvirðingu í garð þeirra fjölmörgu starfsmanna og sérfræðinga sem vinna nú þegar að gerð áhættumats fyrir þessar þrjár virkjanir. Einu mati er þegar lokið, fyrir Urriðafossvirkjun eða það hefur verið kynnt að einhverju leyti, og það er væntanlegt mat fyrir hinar tvær eftir því sem segir í tilkynningu frá Landsvirkjun. Það var boðað í febrúar þannig að þess mats er líklega að vænta innan tíðar. Með leyfi forseta vil ég grípa niður í tillögu þingmannanna. Þar segir í tillögunni:

„Áskilið verði að enginn sem velst í sérfræðihópinn hafi áður unnið að áhættumati vegna virkjananna, hönnun mannvirkja Landsvirkjunar á svæðinu eða eigi að öðru leyti hagsmuna að gæta vegna framkvæmdanna.“

Í greinargerðinni segir:

„Til að slíkt áhættumat sé marktækt verður það hins vegar að vera unnið á óhlutdrægan og faglegan hátt af óháðum sérfræðingum.“ Hvað eiga þingmennirnir við? Í þriðja lagi segir enn fremur í greinargerð: „Sá böggull fylgir þó skammrifi að áhættumatið er unnið fyrir Landsvirkjun af sömu aðilum sem hafa eftirlit með framkvæmdunum og koma að hönnun mannvirkjanna.“

Ég sagði yfirlæti og vanvirðing áðan. Það er kannski stórt til orða tekið en þarna finnst mér verið að gefa í skyn að starfsmenn Landsvirkjunar eigi einhverra annarlegra hagsmuna að gæta sem komi í veg fyrir að þeir geti unnið faglegt áhættumat. Mér finnst þarna vegið að starfsheiðri þessa ágæta fólks og mér líkar það ekki.

Í annarri tilvitnuninni sem ég vísaði til er gefið í skyn að áhættumat sérfræðinga Landsvirkjunar sé ekki marktækt og það sé ekki unnið á óhlutdrægan og faglegan hátt. Mér finnst þetta mjög alvarleg ásökun og ég spyr hvað menn hafa fyrir sér í því, hvort áhættumat sem unnið hefur verið af þessu fólki hingað til hafi reynst vera illa unnið og hvort einhver dæmi séu um það að þetta fólk hafi ekki staðið sig í starfi vegna þess að þarna finnst mér stórt til orða tekið.

Í þriðju tilvitnuninni sem ég vísaði til áðan er það talið áhættumatinu til mikils vansa að það sé unnið af Landsvirkjun, sömu aðilum og hanna og hafa eftirlit með framkvæmdinni. Mér finnst þetta hreint ótrúlegt vegna þess að ég held að það sé alsiða. Það tíðkast í allri hönnun að sami aðili hanni og geri áhættumat. Ég held að það mætti spyrja hvaða verkfræðing sem er að þetta sé alsiða í þessum bransa. Þú byggir hús og þú þarft að setja á það þak og þú gerir væntanlega áhættumat á sama tíma hvað þakið má þola. Það hlýtur að þurfa að þola vatn og vind og ef þú ætlar að gera áhættumat um hvað það þurfi að þola ef loftnet fellur þá gerir þú væntanlega það áhættumat. Það sama á við þarna. Mér finnst algerlega sjálfsagt og eðlilegt að þeir hönnuðir og eftirlitsaðilar mannvirkjanna sem hafa fylgt verkinu frá upphafi beri ábyrgð á því — ekki gleyma því — þeir bera fulla ábyrgð á því áhættumati sem þarna um ræðir. Hvaða annarra sjónarmiða ættu þeir að gæta? Ég get ekki séð að þeir hafi önnur sjónarmið að leiðarljósi en að tryggja að mannvirkið sem þeir bera ábyrgð á standist allar þær kröfur sem gerðar eru. Ég veit ekki til þess að mönnum geti gengið nokkuð annað til en að vanda sig í verkum sínum og tryggja að þessi mannvirki séu reist á sem allra bestan hátt og geti þolað það sem þeim er ætlað að þola.

Í greinargerðinni segir einnig að öryggi framangreindra virkjana hafi verið dregið í efa. Ég vildi þá gjarnan spyrja: Af hverjum hefur það verið dregið í efa? Ég sé í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun frá 12. desember 2007 að áhættumati hafi verið lokið fyrir Urriðafossvirkjun og að það hafi verið kynnt fyrir sveitarstjórnum opinberlega. Ég man ekki eftir miklum umræðum um að það áhættumat hafi verið dregið i efa. Ég gríp niður í fréttatilkynninguna frá Landsvirkjun um áhættumatið fyrir Urriðafossvirkjun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Helstu niðurstöðurnar varðandi Urriðafossvirkjun eru þær að mannvirkin standist þær kröfur sem umhverfisráðherra setur í úrskurði í mati á umhverfisáhrifum og að bygging virkjunarinnar leiði ekki til aukinnar hættu á svæðinu. Við áhættumatið var leitað upplýsinga frá fjölmörgum aðilum, vísindamönnum, hönnuðum og öðrum sem gerst til þekkja. Við hönnun á stíflum og flóðvirkjum er gert ráð fyrir að þau standist svokölluð þúsund ára flóð en svo stór flóð koma einungis að meðaltali á þúsund ára fresti. Þá er einnig gert ráð fyrir að stíflur standist 50% stærri flóð án rofs. Að auki miðast hönnunin við að mannvirkin standist stærsta líklega jarðskjálfta á svæðinu og að undir stíflunum geti myndast sprungur án þess að þær rofni.“

Ég dreg ekki í efa sérfræðiþekkingu þeirra sem þarna er vísað til, þeirra sem gerst til þekkja. Ég dreg hins vegar í efa tilgang þessarar þingsályktunartillögu. Í mínum huga snýst hún ekki um þetta áhættumat sem slíkt. Hún snýst um andstöðu hv. þingmanna Vinstri grænna við framkvæmdirnar í neðri Þjórsá og þá afstöðu get ég virt. Það er afstaða sem þeim er frjálst að hafa en mér líkar ekki þegar vegið er að starfsheiðri fólks úti í bæ sem leggur sig fram í störfum sínum og það leyfi ég mér að kalla vanvirðingu.