135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:52]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tók sérstaklega fram í upphafi máls míns er ég enginn sérfræðingur á sviði áhættumats og ef hv. þm. Mörður Árnason er barn þá erum við bara saman í leikskólanum að því leytinu til. Ég geri ráð fyrir að áhættumat eins og hér um ræðir sé eitthvað sem tíðkast við slíkar framkvæmdir og sé alvanalegt. Mér er ekki kunnugt um það hvort þetta sé eitthvað sem er sérstaklega tekið upp hér. Hvort einhver stofnun fer yfir þetta, einhver prófdómari, það þekki ég bara ekki.

Ég rek augun í það í þingsályktunartillögu þingmannanna að þeir leggja til að vinnan við þetta mat verði á ábyrgð framkvæmdaraðilans, Landsvirkjunar, en þeir vilja að þar séu skipaðir einhverjir sem hafa aldrei gert þessa hluti áður, sem mér í sjálfu sér þykir ótrúverðugt. Ég mundi miklu frekar vilja hafa reynslubolta í þessu mati en að fá einhverja nýgræðinga í það.

Ég get því miður ekki svarað spurningu þingmannsins um tæknilegu atriðin eða hvert áhættumatið er en treysti því að flutningsmaður tillögunnar geti gert það í síðari ræðu sinni.