135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.

443. mál
[14:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hans svör hér. Ég veit að það er rétt, sem hann sagði, að það eru fleiri áhugasamir um þetta mál en framsóknarmenn. Mér er það fullkomlega ljóst og ég veit að þar á meðal er hæstv. forsætisráðherra. Hann fór yfir það sem þegar hefur verið gert varðandi þær tillögur sem við ræðum hér, það er eitthvað sem hefur verið í gangi á undanförnum missirum og árum og er vel. En ég held að það sé mjög mikilvægt að áfram verði haldið að fylgja þessum tillögum eftir og ég heyri það á hæstv. ráðherra að hann er áhugasamur um það og það er auðvitað mjög ánægjulegt.

En ég verð að segja það í lokin á þessari umræðu af minni hálfu, hæstv. forseti, að ég vona að sá draumur sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lýsti á viðskiptaþinginu 2005 — og ég fór yfir í framsögu minni — rætist. Ég er viss um að margir fleiri eiga sama draum og nefni ég þar m.a. unga fólkið okkar sem er sífellt að mennta sig meira og meira og hefur látið til sín taka í fjármálageiranum.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til dáða í málinu og lýsi ánægju með þann áhuga sem hann hefur sýnt því og veit að framgangur þessa máls mun verða þjóðinni til framdráttar í framtíðinni. En ég ætla sleppa því, hæstv. forseti, að ræða hér um gjaldmiðilsmál. Það tengist þessu máli, menn hafa mikið rætt það og munu eflaust gera það í framtíðinni.