135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

samtök framhaldsskólanema.

365. mál
[14:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til menntamálaráðherra um samtök framhaldsskólanema, um það hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir því að stofnuð verði á ný heildarsamtök framhaldsskólanema sem gæti hagsmuna þeirra.

Forsagan er sú að sá sem hér stendur átti einu sinni, sem formaður nemendafélags, aðild að heildarsamtökum framhaldsskólanema, sem var nú ekki fyrir ýkja mörgum árum, 1999 eða svo. Það voru þá mjög öflug samtök sem héldu úti öflugri starfsemi og voru með starfsmann sem fylgdist mjög vel með þeim málum sem vörðuðu framhaldsskólanemendur í landinu. Forsvarsmenn allra nemendafélaga komu síðan saman, a.m.k. einu sinni á ári, þar sem farið var heildrænt yfir málefni framhaldsskólanna og þau rædd í víðu samhengi. Hæstv. menntamálaráðherra heiðraði samtökin oft með nærveru sinni. Eftir þessum samtökum var tekið en því miður lognuðust þau út af af einhverri ástæðu fyrir nokkrum árum og eru nú til samtök nokkurra nemendafélaga sem hafa stofnað sín samtök. Að sjálfsögðu væri æskilegast að til væru heildarsamtök framhaldsskólanema í landinu eins og þau voru fyrir nokkrum árum.

Það er margt sem slík heildarsamtök gætu barist fyrir og horft til. Mikil umræða hefur verið um styttingu námstíma til stúdentsprófs, um samræmt stúdentspróf, um hinn svokallaða dreifbýlisstyrk eða styrk til þeirra nema sem þurfa að stunda nám fjarri heimili sínu. Mikið er rætt um hversu skólabækur er dýrar í framhaldsskólakerfinu og hversu mikilvægt væri að hafa hagsmunasamtök sem fylgjast almennt með hagsmunum nemenda hér á landi.

Ég tel það því mikið hagsmunamál almennt fyrir framhaldsskólana í landinu, og kannski ekki síst fyrir þá nemendur sem stunda þar nám, að við reynum að beita okkur fyrir því að stofnuð verði á ný heildarsamtök framhaldsskólanemenda sem taki upp þau baráttumál sem fyrirsjáanleg eru á næstu árum. Það væri gagnlegt að heyra heildrænt rödd framhaldsskólanemenda í þeim málum sem við fjöllum um hér innan þings og varða framhaldsskólana. Ég beini því þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því, eftir því sem henni er frekast unnt, að samræma krafta framhaldsskólanemenda þannig að rödd þeirra verði áheyrilegri í samfélaginu í dag enda veitir ekki af því að mörg (Forseti hringir.) eru baráttumálin á þeim vettvangi.