135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðsamráði olíufélaganna.

415. mál
[18:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina, en ríkið fól sama lögmanni meðferð þessa máls og rak málið fyrir Reykjavíkurborg. Hugsanleg bótakrafa ríkisins vegna verðsamráðs olíufélaganna er hins vegar mun flóknara mál en krafa Reykjavíkurborgar vegna samráðsins. Það skiptir mestu að ríkið gekk ekki til samninga við neitt olíufélaganna á grundvelli útboðsins árið 1996 þegar dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslan buðu út olíuviðskipti sín og fyrir liggur að olíufélögin höfðu samráð í tilboðum sínum. Úrlausnarefnið er því að leiða fram hvort tjón hafi orðið af samráðinu og hvert það tjón muni vera. Lögmaður ríkisins hefur ritað olíufélögunum bréf og óskað eftir viðurkenningu þeirra á skaðabótaskyldu og upplýsingum um viðskipti. Hvoru tveggja var hafnað.

Nú liggur fyrir dómur Hæstaréttar í máli Reykjavíkurborgar en hann veitir mikilvægar upplýsingar um mat á sönnun í svona málum sem þýðingarmikið er að hafa þegar metið er hvort málsókn ríkisins sé líkleg til að leiða til viðurkenningar á bótaskyldu og greiðslu skaðabóta. Unnið hefur verið að gagnaöflun og lögmaður ríkisins telur að ljúka megi mati á því hvort líklegt sé að málsókn leiði til þess að bætur verði dæmdar innan tíðar.