135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:50]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka fyrir þetta skýra svar. Í framhaldi af þessu hugsa ég oft um tvö flugslys sem voru hér um daginn á hafinu milli Íslands og Færeyja og Íslands og Grænlands. Þegar leitað var að flugmönnunum tveimur sem fórust hugsaði ég mikið um það hvað hefði verið mögulegt ef við hefðum haft betri viðbúnað og getað verið fyrr á staðinn þar sem slysin urðu og líka hvað þetta er gríðarlega mikilvægt í ljósi vaxandi fjölda skemmtiferðaskipa sem eru á þessu svæði.

Þess vegna held ég að það sé, eins og hv. þingmaður vék að áðan, mjög skynsamlegt að við förum að huga að því að koma upp á Vestfjörðum miklu öflugri búnaði í tengslum við björgunaraðgerðir á norðurhöfum. Þetta tel ég nauðsynlegt og umræðan er sífellt í þessa áttina og vex meira um björgunarmál vegna þess að menn sjá að hættan vex með aukinni umferð.