135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil nú byrja á því að afsaka hvað ég kem seint vegna þess að mér var kunnugt um að hv. þingmaður hafði óskað eftir nærveru minni hér við þetta frumvarp. En það var nú þannig, af því að við erum báðir unnendur samgöngumála, að það var svolítil umferð á Miklubrautinni og Kringlumýrarbrautinni sem tafði för samgönguráðherra.

Ég fagna því auðvitað sem fram kemur hjá hv. þingmanni að hann og flokksmenn hans séu sáttir við meginmarkmið þessa frumvarps, enda vil ég trúa því að hér sé verið að setja fram gott mál sem menn geti verið sáttir við þótt einhver ágreiningur sé um einstök útfærsluatriði eins og hv. þingmaður ræddi hér um og ég hlustaði á með athygli. Ég mun auðvitað koma því skilmerkilega til hæstv. utanríkisráðherra. Það er svo verkefni utanríkismálanefndar, sem hefur fengið frumvarpið, að fara yfir þessi atriði.

Hv. þingmaður gerir nokkur atriði hér að umtalsefni eins og 3. gr. þar sem fjallað er um skýrslugerðina annað hvert ár. Hann spyr hvers vegna það sé ekki á hverju ári. Ætli það sé ekki svipað sem á við hér og um stýrihópinn sem talað er um að setja eigi í staðinn fyrir stjórn. Eins kemur fram að í stýrihópnum sitji innanbúðarmenn. Mér dettur í hug að þarna sé kannski verið að reyna að gera þetta örlítið einfaldara vegna þess að auðvitað eru margar skýrslur og þess háttar flutt til Alþingis á hverju ári. Kannski er þetta hugsað til að minnka pappírsflóð, minnka umfangið og umræðuna, að hafa skýrslugerðina annað hvert ár. Nú koma upp í huga minn skýrslur sem við leggjum oft fram hjá samgönguráðuneyti um framkvæmd vegamála og flugmála og hafnarmála og þess háttar.

Þótt ég geti alveg tekið undir það með hv. þingmanni að ef til vill sé ástæða til að flytja skýrsluna á hverju ári þá dettur mér í hug að þetta kunni að vera ástæðan. Það hlýtur að vera verkefni utanríkismálanefndar að kanna hvort það sé skynsamlegt. Miðað við breytt vinnubrögð hér á Alþingi með nýjum þingskapalögum hefur nú skapast tími fyrir ýmislegt af þessum toga. Minni tími fer til spillis í langar ræður og langa næturfundi með hinu nýja kerfi sem tekið hefur verið upp og við erum að þróa.

Ég ætla ekki að blanda mér mikið í það sem hv. þingmaður talaði um varðandi 6. gr., um störf í þágu friðar. Þingmaður veltir fyrir sér af hverju friðargæsluverkefnunum sé blandað hér saman við. Ég held því líka fram að það sé skynsamlegt að setja friðargæsluna hér inn til að hafa þetta einfaldara. Vissulega kemur oft upp ágreiningur um friðargæsluverkefni, hvort þau séu í raun og veru friðargæsluverkefni eða hvort við séum að blanda okkar friðelskandi þjóð inn í einhver hernaðarátök sem ættu alls ekki að eiga sér stað eins og stundum er rætt um að hafi gerst í Afganistan.

Varðandi 7. gr. um ráðningartíma framkvæmdastjóra, þ.e. ekki til fimm ára eins og almennt er, þá hlýtur það að vera skýringin á því, virðulegi forseti, að ekki er um embættismenn í þeirri skilgreiningu að ræða eins og á t.d. við um ýmsa forustumenn ríkisstofnana. Tökum vegamálastjóra sem dæmi, þar er skipunartíminn fimm ár. Það hlýtur að vera hugsunin á bak við þetta, að binda það ekki lengur en í fimm ár. Það er einfaldlega vegna þess að þarna er ekki um skilgreiningu á embættismanni að ræða heldur er ráðinn framkvæmdastjóri fyrir Þróunarsamvinnustofnunina á þeim kjörum og því sem þar verður sett fram.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi hér um reglugerðarheimildir í 11. gr. Auðvitað hefur sá sem hér stendur oft nefnt svipaða hluti eins og hv. þingmaður var að gera. Af hverju eru ekki ýmsir þættir skrifaðir meira inn í lögin sem svo koma í reglugerðarheimildir? Þetta er eilíft umræðuefni hér á Alþingi en þróunin hefur nú samt sem áður verið þessi og það er nú stundum þannig að í reglugerðarheimildunum er auðveldara að bregðast við hlutum og breyta reglugerðum en að breyta lögum á Alþingi. Síðan er það aftur spurning hve margar reglugerðir eru settar utan um hver lög. Ég held að það sé til marks um hversu góð lögin eru hve fáar reglugerðir eru settar í framhaldi af þeim. Þær eru þá hafðar sem einfaldastar.

Sá sem hér stendur var rétt fyrir klukkutíma síðan að ræða um hluti í umferðarlögum sem ég veit að hv. þingmaður á eftir að taka undir með mér, um nokkuð sem við þurfum ef til vill að breyta í umferðarlögunum en hafa víðtækari reglugerðarheimild. Ég ætla nú ekki að blanda því inn í þessa ágætu umræðu hér.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær ábendingar sem komu fram í máli hans við frumvarpið og ítreka það sem ég hef sagt að hann hefur sett fram eðlilegar spurningar og vangaveltur sínar um þessa þætti. Það verður auðvitað verkefni utanríkismálanefndar að fara yfir. Ég tel að hér sé um að ræða metnaðarfullt frumvarp hjá utanríkisráðherra. Ég hlustaði á framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra og ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi þetta frumvarp. Mér heyrðist vera töluverður samhljómur um það þótt einhver ágreiningur væri, eða kannski ekki ágreiningur heldur skoðanamunur á þessum hlutum.

Ég trúi því að þau sjónarmið sem hv. þingmaður hefur sett hér fram komi þá inn og ef utanríkismálanefnd tekur þau til skoðunar þá er gott mál gert enn þá betra.