135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[13:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra sem varðar Reykjavíkurflugvöll. Sannleikurinn er sá að það ríkir mikið vandræðaástand í sambandi við Reykjavíkurflugvöll og á meðan engin ákvörðun hefur verið tekin um það hver framtíð hans verður drabbast allt niður sem að honum snýr og starfsemin þar er í raun, ef við tölum um flugstöðina, okkur til skammar. Þetta er eitt en annað er það að Iceland Express hefur verið synjað um lóð sem þýðir að fyrirtækið á þá í erfiðleikum með að byggja upp starfsemi sína í innanlandsfluginu sem tefur það að þar komist á samkeppni. Auk þess má geta þess að Flugfélag Íslands hefur óskað eftir að byggja á flugvellinum.

Allt þetta gerir það að verkum að það bitnar í raun á farþegum og því að hér geti hafist samkeppni í innanlandsflugi. Þetta hlýtur að vera mál sem hæstv. samgönguráðherra veltir mikið fyrir sér og vinnur að. Ég kem því upp til þess að spyrja ráðherrann hvað hann sjái fyrir sér í sambandi við lausn þessara mála þannig að við getum séð fyrir okkur að einhver niðurstaða finnist í sambandi við uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar á næstu árum.