135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.

370. mál
[14:19]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja hér athygli á erfiðri stöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands norðan og sunnan heiða og tek undir með ráðherranum sem lagði áherslu á að verkefnin í þessum málaflokki eru mjög brýn. Það er í rauninni himinhrópandi að ekki skuli vera lagður meiri kraftur í að sinna því að safna grunnupplýsingum um náttúru Íslands sem hægt væri að nota til að byggja ákvarðanir á. En, herra forseti, þetta lá ljóst fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir tveim, þrem mánuðum og því miður verður það að segjast eins og er að þar var ekki króna til aukningar í starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Og það er dapurlegt að stofnunin skuli hafa þurft undanfarin ár og út þetta ár að borga himinháa húsaleigu til einkaaðila á Akureyri fyrir tómt húsnæði. Það sem gerðist var auðvitað það (Forseti hringir.) að húsnæðinu þarna var útvistað og leigja þurfti miklu stærra húsnæði en þörf var á upphaflega. Það er staðreynd málsins.