135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kræklingarækt.

382. mál
[16:01]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að þessi fyrirspurn skuli koma fram í þingsal núna. Þegar ég sat á þingi árið 2001–2002 lagði ég fram svipaða fyrirspurn um kræklingarækt. Þá komu svör frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem þá var ráðherra, um að styrkur hefði verið veittur til kræklingaræktar við Hrísey og það var mjög jákvætt.

Ég tel að við þurfum að efla kræklingarækt eins og við getum. Eins og er er neyslan í Evrópu 800 þús. tonn. Það er mjög mikil neysla á þessari afurð. Við þurfum náttúrlega að byggja upp og kynna okkur markaðsstarf og annað. Ég gleðst yfir því að starfshópur skuli kominn í gang sem hafa á að markmiði að finna út hagkvæmni þessarar greinar.