135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[13:58]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þeirri samkeppni sem nú ríkir á lyfjamarkaðnum og lyfsölunni hefur það m.a. komið fram í fækkun lyfjafræðinga í apótekum. Hvað nikótínlyfin varðar þá er notkun nikótínlyfja hér á landi mun meiri en þekkist í nágrannalöndum okkar, þótt víðar væri leitað.

Hvers vegna? Tilgangurinn með lyfjunum er jú að nota þau sem leið til þess að hætta að reykja. En til þess að lyfin gagnist þarf að vera góður stuðningur og góð fræðsla og sú fræðsla á í raun og veru að koma samhliða sölu á þessum lyfjum. Það er alveg ljóst að mikið hefur skort á að nægilegur stuðningur og fræðsla hafi verið fyrir þá sem hætta að reykja með því að nota nikótínlyfin.

Nikótín er sterkasta ávanabindandi efni sem þekkist í heiminum í dag. Það er sterkara en heróín og það er sterkara en kókaín. Þar sem þetta er svona sterkt ávanabindandi efni þá finnst mér það vera umhugsunarefni ef afgreiða á það með tóbaki. Ég hefði frekar viljað sjá aðgerðir í hina áttina, að möguleikarnir verði að einhverju leyti takmarkaðir, að tóbak verði ekki selt á hverjum einasta kassa í stórmörkuðunum eða að það væri t.d. selt í sölubásum í matvöruverslunum í stað þess að selja það við afgreiðslukassana. Á kössunum vinna nú unglingar jafnvel (Forseti hringir.) frá fermingaraldri. Er (Forseti hringir.) í raun og veru ráðlegt að koma útsölunni í stórmarkaðina?