135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

löggæsla á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu -- kjör elli- og örorkulífeyrisþega.

[14:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er gott og mikilvægt að hv. þm. Alma Lísa Jóhannsdóttir skuli hafa vakið athygli á kjörum aldraðra og örorkuþega. Sjálfum finnst mér það mikið áhyggjuefni hve smátt þessi ríkisstjórn hugsar þegar öryrkjar og aldraðir eru annars vegar.

Það er nýbúið að ganga frá kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Í þeim samningum er kveðið á um að lægst launaða fólkið skuli hækka um 18 þús. kr. á mánuði. Hvað er öldruðum og öryrkjum ætlað af hálfu ríkisstjórnarinnar núna 1. apríl? Á milli 4 og 5 þús. kr. Stundum er talað um að þessi tala sé hærri, á bilinu 7.700–9.400, en þá eru þar inni, eins og kom fram í máli hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur, hækkanir frá síðasta ári. Við erum þá að tala um hækkanir um síðustu áramót sem eru lögbundnar. Það eru á milli 4 og 5 þús. kr. sem öryrkjar og aldraðir eru að fá þegar við berum saman hækkanir til lægst launaða fólksins á almennum vinnumarkaði. Þetta er framlag ríkisstjórnarinnar til þeirra sem búa við lægst kjör á Íslandi í dag. Greiðslur aldraðra einstaklinga sem þurfa að reiða sig eingöngu á almannatryggingar hækka um næstu mánaðamót úr 130 þús. kr. á mánuði, og 400 kr. til viðbótar hygg ég upp, upp í 135 þús. kr. Það þekkja allir sem fara út í búð (Forseti hringir.) og þurfa að greiða húsaleigu eða þurfa að draga fram lífið hvað við erum að tala um agnarsmáar upphæðir en þær eru góður spegill á þá ríkisstjórn sem nú situr að völdum á Íslandi.