135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

ferjubryggjan í Flatey.

416. mál
[15:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að ferjubryggjan í Flatey á Breiðafirði skuli koma til umræðu og fagna svörum samgönguráðherra um að þar eigi að gera verulegar úrbætur. Mér er kunnugt um að þar hafi heimaaðilar komið með ábendingar og tillögur til samgönguráðherra. Ég vona að hæstv. ráðherra geti orðið við þeim beiðnum, að gera ekki aðeins ráð fyrir ferjunni heldur einnig aðstöðu fyrir aðra báta í Flatey.

Eyjan er mikilvæg fyrir þetta svæði varðandi ferðamannaiðnaðinn. Ég vona að einnig takist að halda siglingum með Baldri í gangi þótt samgöngur verði bættar norðan við Breiðafjörðinn. Eins bera að fagna því að í fjárlögum 2008 tókst okkur að setja inn 10 millj. kr. í að fjarlægja frystihús sem hefur verið til vansa á hafnarbakkanum. Stórbæta þarf móttökuna við höfnina þannig að þeir sem þarna koma geti haft aðstöðu við bryggjuna, þegar beðið er og tekið er á móti Baldri. En þetta stendur all til bóta. Ég treysti á að fljótt verði farið í hafnarframkvæmdir og frystihúsið fjarlægt sem allra fyrst.