135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

undanþága frá skattlagningu á mengun frá flugvélum.

413. mál
[18:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að málið snýst um samkeppnisstöðu og aðlögun að ákveðnu kerfi sem Evrópusambandið er að koma sér upp. Þess vegna biðjum við um ákveðna aðlögun, bæði vegna þess að legu landsins getum við ekki breytt og að almennir farþegaflutningar til og frá Íslandi fara fram í flugi. Hér höfum við ekkert val. Það eru helstu rökin í þessu máli. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að flugrekstur er hins vegar mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Það er alveg rétt. Hún er það.

Markmið tilskipunarinnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og kom fram í svari mínu þá erum við algjörlega fylgjandi því markmiði. Spurningin er hvort aðlagast megi með einhverjum hætti þessari ákvörðun Evrópusambandsins yfir lengri tíma en einn mánuð eða svo.

Hv. þingmaður virðist hafa gert sér grein fyrir því að jarðvegurinn fyrir skilning á þessum málum ekki mikill í Evrópusambandinu. Svo virðist sem menn hafi tekið ákvörðun um að gera þetta en jafnframt, það kom fram í viðræðum sem ég átti við Stavros Dimas, framkvæmdastjóra umhverfismála hjá Evrópusambandinu í byrjun mars, vill Evrópusambandið vinna að þessum málum í samningaferlinu frá Balí til Kaupmannahafnar. Taka flugið og skipin þar undir. Þetta er í raun unnið samhliða. Það er svo sem ekkert óskynsamleg pólitísk afstaða af þeirra hálfu mundi ég halda. Við skulum sjá hverju vindur fram þar.

Það hefur komið fram á fundum mínum með umhverfisráðherrum frá Norðurlöndunum hver afstaða okkar er. Samgönguráðuneytið er að vinna í málinu. Utanríkisráðuneytið og (Forseti hringir.) sendiráðið í Brussel líka. Mönnum er fullkunnugt um afstöðu okkar en þar með er ekki sagt að hún verði viðurkennd.