135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:18]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð ummæli um þetta frumvarp. Mér þykir gott að heyra að hann telji margt í því horfa til réttrar áttar.

Varðandi það að einhver ákvæði þess gangi of skammt, ef hv. þingmaður á við margnefnda 80 milljarða kr. aukningu gjaldeyrisvaraforðans, þá hef ég þegar útskýrt í hvaða samhengi sú tala var sett inn. Það var á þeim tíma mat okkar að það mundi gera verulegan skurk að auka hann um meira en einn þriðja, eins og málin stóðu þá. En ég hef þegar sagt opinberlega að sennilega er þessi tala, í ljósi þess sem síðan hefur gerst, orðin allt of lág, vilji menn gera myndarlegar ráðstafanir þótt það sé jafnframt orðið erfiðara og dýrara.

Það er því miður líklegast, ef ríkisstjórnin að lokum aðhefst eitthvað í þessum efnum, að eftirmæli þeirra ráðstafana kunni að verða of lítið, of seint. Of lítið eða of seint. Það skyldi nú ekki vera (GÁ: Ekkert.) nema það verði ekkert.

Varðandi Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuframkvæmdir er rétt að hafa í huga að meira gerðist en að Kárahnjúkavirkjun væri reist, dýrasta og stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Byggt var álver við Reyðarfjörð, stækkað álver á Grundartanga og byggðar virkjanir á Hellisheiði og víðar. Samtals voru þessar samanþjöppuðu stóriðjuframkvæmdir upp á um einn þriðja af vergri landsframleiðslu heils árs og komu inn í hagkerfið á örfáum missirum. Seðlabankinn og innlendir og erlendir greiningaraðilar sögðu: Það verður gríðarlega erfitt að eiga við hagstjórn ef svona miklar samþjappaðar fjárfestingar dælast í ríkið, inn í opið hagkerfi á örstuttum tíma. Ætli það hafi ekki heldur betur komið á daginn?

Þótt menn vilji gjarnan reyna fría Kárahnjúkavirkjun og stóriðjustefnuna af ábyrgð í þessum efnum þá dugir það ekki. Þótt ekki hefði komið annað til en miklar væntingar sem höfðu sannarlega veruleg áhrif á þróun markaða á þessum tíma þá væri það eitt og sér ærið áhyggjuefni. Þjóðhagsráð er hugsað sem samráðsvettvangur fulltrúa stærstu heildarsamtaka í landinu og þingflokka. Ég veit ekki til þess að það sé venjan (Forseti hringir.) að gera sérstakar hæfniskröfur þegar slíkir aðilar skipa sínu fólki eða fulltrúum sínum til verka. Þeir (Forseti hringir.) leggja það ég ekki í vana sinn að tefla fram óhæfu fólki.