135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:53]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra að fara að ráðleggingum vísindamanna okkar varðandi þorskkvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár sýnir áræði, ábyrgð og skilning á viðkvæmum aðstæðum. Við höfum rækilega verið minnt á það á undanförnum vikum og mánuðum hverjar eru undirstöðuatvinnugreinar okkar.

Staða þorskstofnsins er ekki nægilega góð og það eru vissulega vonbrigði. Fyrir því eru ástæður sem okkur eru kunnar (Gripið fram í.) og aðrar sem erfitt er að gera sér grein fyrir. Meginástæðan er sú að of mikið hefur verið veitt á undanförnum árum og áratugum. Vissulega hefur ráðgjöfin og forsendur hennar ekki alltaf reynst réttar en það er staðreynd að þekking okkar á hinu flókna samspili í vistkerfi sjávar er takmörkuð.

Á undanförnum árum hafa aðstæður í hafinu breyst mikið og má rekja það að miklu leyti til hlýnunar sjávar. Sú mynd sem vísindamenn okkar höfðu af samspili í vistkerfinu hefur riðlast jafnvel í mikilvægum atriðum. Stjórnvöld hafa á þessu ári aukið framlög til hafrannsókna og má þar m.a. nefna aukið framlag vegna togararalls. Þar er verið að mæta gagnrýni um of fáar og rangar togslóðir og var þeim fjölgað umtalsvert eins og fram hefur komið í nýliðnu ralli. Ráðherra skipaði starfshóp með fulltrúum allra hagsmunaaðila þannig að sem víðtækast samráð væri haft og flest sjónarmið kæmu fram.

Virðulegi forseti. Við erum á ákveðnum tímamótum í hafrannsóknum vegna þeirra miklu breytinga sem átt hafa sér stað í hafinu umhverfis landið. Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að efla starfsemi þeirra aðila sem að rannsókn koma. Það er skoðun mín að auka þurfi enn frekar fjármagn til frekari rannsókna á næstu árum og sérstaklega horfa í því tilfelli til aukinna rannsókna á vistkerfinu og okkar mikilvægustu nytjastofnum þannig að allt verði lagt í sölurnar til að afla vísindamönnum okkar bestu mögulegra gagna. Á þeim byggjum við síðan ákvarðanir um nýtingu í framtíðinni.

Þegar við ræðum um og tökum ákvarðanir um fjöregg þjóðar er mikilvægt að það sé gert af ábyrgð og festu. Gera verður þær kröfur til þeirra sem vilja ræða málið að rétt sé farið með staðreyndir. Slíku er ekki til að tjalda hjá málshefjanda. Vitað er að það er góð þorskveiði nú um stundir og það liggur fyrir að hún byggist á veiði og meðalsterkum árgöngum (Forseti hringir.) frá því fyrir aldamótin. Það eru þeir árgangar sem á eftir koma sem valda áhyggjum og auka mikilvægi þess að reyna að byggja upp sterka hrygningarstofna.