135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Umræða sú sem hér var efnt til undir yfirskriftinni Rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar er auðvitað mjög yfirgripsmikil umræða eðli málsins samkvæmt. Það er vandasamt verk að gagnrýna þá veiðiráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun kemur með. Við höfum fjölda rannsóknaskýrslna sem okkur eru aðgengilegar og opnar og við sjáum í þeim að þar eftir bestu manna vitund er varað við mikilli veiði. Svo fáum við hins vegar sögurnar sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sýnir okkur úr Fiskifréttum í dag.

Þetta er vandaverk að rata þarna einhvern meðalveg á milli hinnar vísindalegu ráðgjafar og þess sem sjómenn síðan segja. En það sem mig langar til að minna á er að við höfum komið okkur upp Hafrannsóknastofnun. Þar eru 150 stöðugildi. Þetta er rannsóknastofnun, vísindastofnun sem við leggjum til hátt í 2 milljarða á ári á fjárlögum íslenska ríkisins eða 1,4 milljarða. Við höfum stjórn sem er skipuð hagsmunasamtökum í Hafrannsóknastofnun. Við erum líka með ráðgjafarnefnd sem fór að starfa með nýju sniði innan stofnunarinnar fyrir fjórum árum. Þar eru tilnefndir aðilar í ráðgjafarnefndina sem valdir eru af ráðherra og samkvæmt samráði Hafrannsóknastofnunar. Þar eru þrír menn úr atvinnugreininni, þrír úr samfélaginu og þrír frá erlendum stofnunum. Við erum með gríðarlega öfluga stofnun sem samt á fullt í fangi með að vinna þau verk sem við viljum leggja á herðar henni. Það sem skiptir síðan miklu máli er að fiskstofnarnir okkar séu nýttir með sjálfbærum hætti. Það er viðleitni Hafrannsóknastofnunar að gefa veiðiráðgjöf sem gerir okkur kleift að nýta þá 40 fiskstofna sem Hafró rannsakar (Forseti hringir.) með sjálfbærum hætti en ofnýtum ekki þannig að við eigum eitthvað eftir til framtíðar.