135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir til umræðu um ráðstafanir í efnahagsmálum sem þingflokkur Vinstri grænna flytur er í sjálfu sér virðingarverð tilraun sósíalísks flokks til að nálgast lausn á þeim vandamálum sem við er að etja í okkar borgaralega hagkerfi. Hitt er annað mál að menn hljóta að sjálfsögðu að velta fyrir sér þeim leiðum og þeim kostnaði sem gæti hlotist af og hvort eðlilegt sé að fara nákvæmlega þá leið sem hér er lögð til. Spurningin er til dæmis hvort eðlilegt sé að leggja fé skattborgaranna, gríðarlega mikla fjármuni, til að styrkja stöðu Seðlabankans. Í sjálfu sér virðist það vera leið sem ríkisstjórnin ætlar sjálf að fara og jafnvel að taka enn myndarlegar á því en hér liggur fyrir. Jafnvel hefur hæstv. utanríkisráðherra nefnt tölur sem eru með öllum ólíkindum varðandi það hvernig eigi að taka lán til þess að styrkja stöðu Seðlabanka og þess vegna viðskiptabankanna.

Ýmislegt annað eins og til dæmis þjóðhagsráð og annað slíkt sem eru í sjálfu sér gamalkunn úrræði sósíalískra stjórnmálamanna kæmu að mínu viti ekki til góða í glímunni við þessi vandamál. Nóg eru ráðin fyrir því. En það er í sjálfu sér nokkuð merkilegt að við skulum hér á vordögum fjalla um það hvernig við eigum að leysa úr aðsteðjandi efnahagsvanda. Ég minni á að ekki eru margir mánuðir síðan þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru mikinn og töluðu um hvað allt væri hér gott og farsælt og hvað við stæðum betur en nánast allar þjóðir í heiminum. Nú hagar þannig til í okkar þjóðfélagi að fiskverð er með því hæsta sem þekkist. Verð á áli er með því hæsta sem þekkist. Þetta eru helstu útflutningsvörur okkar Íslendinga. Miðað við það ætti allt að vera hér í gríðarlega mikilli velsæld. Það ættu ekki að vera mikil vandamál nema vegna þess að efnahagsstjórnin er ekki í lagi. Spurningin er: Hvenær fór hún í ólag? Menn geta deilt um það. En niðurstaðan — hvernig sem það er — er að hún er ekki í lagi. Nú horfir fólk kvíðið fram á veginn. Margir óttast um atvinnu sína. Margir óttast að missa eignir sínar eða lenda í greiðsluerfiðleikum. Fólk er hrætt við það sem kann að gerast. Gengisfall íslensku krónunnar og fall á verðbréfamörkuðum er vísbending um að hætta geti verið á ferðum hvað svo sem öðru líður. Ég verð ekki var við annað en að stór hópur fólks hafi misst trú á getu ríkisstjórnarinnar til að stjórna af öryggi og festu.

Í fréttum í dag segir frá því að vöruskiptin séu óhagstæð um 5,3 milljarða. Þá erum við að tala um bráðabirgðatölur fyrir mars á þessu ári. Það bendir ekki til þess að krónan hafi náð þeirri lægð að skapa stöðugleika alla vega hvað varðar vöruviðskipti. Jafnframt er getið um það í frétt í Morgunblaðinu í dag að hagvöxtur minnki umtalsvert. Það er talað um að hann geti minnkað — eða það er í sjálfu sér ekki spáð um hvað hann geti minnkað en hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að hann geti farið allt niður í 1% eða orðið neikvæður hagvöxtur miðað við fólksfjölgun. Allt þetta eru áhyggjuefni. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig standi á því að ráðamenn sem töluðu um það fyrir hálfu ári hvað allt væri í mikilli velsæld og Seðlabankinn um að nauðsynlegt væri stöðugt að hækka stýrivexti skuli nokkru seinna standa frammi fyrir þjóðinni og tilkynna um enn eina stýrivaxtahækkun og erlendar lántökur ríkissjóðs til að styrkja gjaldeyrisstöðu Seðlabankans. Hverju er um að kenna? Við erum með hæsta verð á helstu útflutningsafurðum okkar, ríkasta þjóð í heimi sem allt í einu varð að skuldugustu þjóð í heimi. Þegar Davíð Oddsson seðlabankastjóri tilkynnti keikur 26. mars að stýrivextir Seðlabankans hefðu verið hækkaðir um 1,25% eða í samtals 15% þá sagði hæstv. forsætisráðherra að sú hækkun hefði ekki komið á óvart í sjálfu sér og hæstv. utanríkisráðherra tók undir með forsætisráðherra og sagði að Seðlabankinn sendi sterk skilaboð með vaxtahækkun um að hann ætlaði sér að hemja verðbólgu. Verðbólga mælist nú í tveggja stafa tölu. Þrátt fyrir að Seðlabankinn segist hafa verið að beita ákveðnum aðferðum til að hemja verðbólgu þá er verðbólga sú mesta í okkar heimshluta hér. Við erum líka með langhæstu stýrivextina. Á meðan hæstu vextir í okkar heimshluta, þ.e. stýrivextir seðlabanka, eru í kringum 5% þá erum við með 15% sem bendir til þess að þessi leið og aðferð Seðlabankans hafi ekki dugað. (GÁ: Og Tyrkland.) Já, og Tyrkland. En það er alltaf spurningin hvað við teygjum okkur langt þegar við metum okkar heimshluta. Það er hins vegar hægt að gera kröfur til Seðlabankans því það kostar sitt að reka þann banka. En það er líka athyglisvert að skoða ummæli forsætisráðherra þegar hann sagði í Fréttablaðinu þann 26. mars síðastliðinn að staða mála á gjaldeyrismörkuðum væri ekki komin á það stig að hún kallaði á sérstakar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í: Að sinni.) að sinni. Þá sagði hann að hagvöxtur gæti hrapað niður í 1% úr tæpum 4% á síðasta ári og að það væri mikilvægt fyrir fólk að átta sig á því að fram undan gæti orðið samdráttur í efnahagslífinu sem fólk fyndi fyrir, en ríkisstjórnin ætlaði ekki að bregðast við með neinum aðgerðum að sinni.

Í grein í Sunday Telegraph, virtu ensku blaði, blaði Íhaldsflokksins eða blaði sem styður Íhaldsflokkinn breska 23. mars síðastliðinn, þrem dögum áður en forsætisráðherra tjáði sig með ofangreindum hætti við Fréttablaðið, segir að íslenska ríkisstjórnin reyni að komast hjá allsherjarhruni efnahagskerfisins. Þá var á það bent að krónan hafi fallið gagnvart evru um 17,2% í mars, um 25% á árinu 2008. Síðan vitnar þetta virta enska blað í fjármálamann sem segir: „Íslensku bankarnir eru undir miklu álagi og einhvern tíma verða þeir fyrir skelli. Við gætum öll haft rangt fyrir okkur en það gæti orðið flugeldasýning.“ Þetta fullyrti þetta virta enska blað þann 23. mars. En forsætisráðherra hefur ekki greint þjóðinni frá því að nokkur sú vinnsla væri fyrir hendi hjá ríkisstjórninni sem þetta blað heldur fram að sé fyrir hendi og vel kann að vera að þetta blað hafi rangt fyrir sér en samt sem áður er þetta staðhæft og þessum fullyrðingum hefur ekki verið mótmælt.

Í Financial Times, því virta fjármálablaði, fimmtudaginn 27. mars segir að forsætisráðherra Íslands sé á auglýsingaferð til að reyna að tala kjark í fjárfesta sem fjárfesta í íslenskum krónum til að halda því áfram. En blaðið segir síðan að um það sé í raun að ræða að þar tali maður sem sé í baráttu við að njóta lánstrausts og breyta viðhorfi lánardrottna til skuldunauts sem sé á kafi í skuldum. Síðan vísar þetta blað til þess hvernig efnahagskerfi okkar hafi verið og talar um Ísland sem gríðarstóran vogunarsjóð. Um þetta fjallar Financial Times þann 27. mars síðastliðinn.

Vissulega vonum við að ekki komi til áfalla í íslensku efnahagslífi umfram það sem þegar er orðið og við sjáum fyrir. En það er alveg ljóst að menn hafa farið fram á brún hengiflugsins. Það er spurning hvort það verður spornað við og við snúum af þeirri hættulegu vegferð sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa verið á með því að halda uppi hágengisstefnu sem engin innstæða er fyrir, með því að svelta íslenska framleiðsluatvinnuvegi með hágengisstefnunni, með því að niðurgreiða gjaldeyrinn og auka innflutninginn og stofna þar með til stöðugt vaxandi þjóðarskulda. Þetta er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og þetta er sú efnahagsstjórn sem hefur verið fylgt og er fylgt.

Hv. þm. Pétur Blöndal vék í ræðu sinni áðan að fyrirtækjum að þau hefðu ekki lækkað sem skyldi þegar krónan hækkaði og hann spurði: Hver gerði athugasemd við það? Sá sem hér stendur gerði það ítrekað öll árin og benti á ýmsar vörutegundir sem hefðu ekki lækkað. Vandamálið var það og er það að stjórnvöld hverju sinni á undanförnum árum hafi ekki staðið nægilega fast í ístaðinu varðandi það, auk þeirra aðila sem eiga að gæta samkeppni, að fylgjast með hvernig verðlag þróast.

Ég gerði á sínum tíma tillögu um að við værum með stöðugt eftirlit og fylgni með hvernig vöruverð á Íslandi þróaðist miðað við nágrannalönd okkar vegna þess að af því að við erum með þennan skrýtna gjaldmiðil þá verður samanburður erfiðari en ella væri. Þá væri líka spurning um og væri nauðsyn að koma á innflutningsvísitölu þannig að menn sæju hvort vöruverð innan lands væri að hækka óeðlilega miðað við gengisþróun. En vandamálið okkar í dag er fyrst og fremst til komið vegna þess að við höfum stofnað okkur í gríðarlegar skuldir og lánakjör eru erfiðari en ella. Það er vegna þess, eins og hárrétt er hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að þjóðin hefur ekki sparað, þjóðin hefur steypt sér í skuldir og það hefur verið gert meðvitað. Það hefur verið stefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að hafa það þannig með því að hækka stýrivexti, með því að hækka fjárlög umfram öll eðlileg mörk og skatta á almenning í landinu. Hv. þm. Pétur Blöndal spyr: „Af hverju sparar fólk ekki?“ Í fyrsta lagi er það nokkuð erfitt fyrir venjulegt launafólk í landinu sem greiðir meiri hluta launa sinna í ofurskatta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið á launafólk í landinu fyrir utan það að hækka framlag til lífeyrissjóða. Hvað er þá eftir, þegar við erum auk þess með hæsta virðisaukaskatt í Evrópu? Hvar á fólkið að spara? Það er með þvingaðan 12% sparnað sem er gríðarlega mikill sparnaður miðað við þann sparnað sem almennt gerist í veröldinni. Það er nú einu sinni þannig að vegna skattstefnu á launafólk er mjög erfitt fyrir fólk hreinlega að láta enda ná saman og gæta þess að eiga nóg fyrir sig og sína. Þannig er það með ákveðinn og þó nokkuð stóran hóp launafólks í landinu og ekki má gleyma þeim hópi. Við erum í vanda vegna gengisstefnunnar, vegna þess að við erum með flotkrónu sem sveiflast eftir markaðsgengi hverju sinni á minnsta myntsvæði í heimi. Þetta er svo hættuleg stefna að það er alveg með ólíkindum að menn skuli ekki hafa séð að sér og áttað sig á því að nauðsynlegt er að tengja gjaldmiðilinn með ákveðnum hætti við gjaldmiðil með ákveðnum vikmörkum sem mundi þýða það að við mundum ekki þurfa að eiga eins mikinn gjaldeyrisvarasjóð og verið er að leggja til í þessu frumvarpi eða það sem hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru að tala um núna.

Ársæll Valfells, dósent við Háskóla Íslands, benti á þetta í mjög góðri yfirferð á sínum tíma í fjölmiðli fyrir nokkru. Hann benti á að við hefðum í raun hannað kerfi okkar að nýsjálenskri fyrirmynd. Í erlendum fjölmiðlum er jafnvel talað um hvort íslenska veikin muni breiðast út til fleiri landa, til Eystrasaltsríkjanna, til Tyrklands og jafnvel Suður-Afríku og Nýja-Sjálands. Það er vegna þess að menn líta á hvað óvarlega hefur verið farið af hálfu Seðlabanka og ríkisstjórnar á Íslandi á undanförnum árum með þeim hætti að taka endalaust lán, að flytja endalaust inn peninga og flytja út vexti en þó með þeim fyrirvara að vextirnir hafa ekki enn verið fluttir út vegna þess að vöxtunum hefur verið bætt ofan á vegna þess að ný lán hafa verið tekin þegar að afborgunum er komið. Þetta er sú þjóðfélagsmynd sem við okkur blasir og um er að ræða. Þess vegna er þjóðin er í vanda og við þurfum reyna að komast út úr þessu.

Ég tel að við þurfum að tengja gjaldmiðil okkar stóru myntsvæði. Það er grundvallaratriði og við frjálslynd lögðum það til í kosningabaráttunni og stöndum við það að við teljum að nauðsynlegt sé að gera það miðað við gengiskörfu helstu gjaldmiðla okkar. Það er eitt atriði. En ríkissjóður þarf líka að mæta með lægri álögum vanda þjóðfélagsborgaranna þannig að ekki verði víxlverkanir og lánskjaravísitala eða vísitala neysluverðs (Forseti hringir.) til verðtryggingar hækki út yfir öll mörk þannig að hann verði óviðráðanlegur.