135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skiptir kannski ekki alveg öllu máli hvað þetta heitir nema ég vildi koma þeirri ábendingu á framfæri að þegar rætt er um afkomu sveitarfélaganna er erfitt að alhæfa um hana. Hún er afskaplega misjöfn, sum sveitarfélög standa vel að vígi, önnur ekki.

Að sjálfsögðu gildir hið sama þegar við horfum til skuldastöðu heimilanna. Þó held ég að hægt sé að alhæfa um það að fólk sem er að kaupa íbúð núna eða koma sér upp húsnæði í fyrsta sinn eða leigir og er með litlar tekjur, býr við erfiðan kost og mjög þungar og sívaxandi klyfjar sem okkur ber að horfa á af mikilli alvöru.

Varðandi skuldastöðu ríkisins og skuldastöðu bankanna var ég einvörðungu að benda á að við höfum í þessari umræðu einblínt um of á ágæti þess að ná niður skuldum ríkissjóðs og gleymt að horfa til heildarsamhengisins þegar skuldir þjóðarbúsins hafa verið að vaxa, skuldir bankanna svo mjög að ef þeir ekki standa sína plikt riðar allt efnahagskerfið og fjármálakerfið í landinu til falls. Það var það sem hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar sagði á aðalfundi Seðlabankans að ef það gerðist kæmi skattborgarinn til bjargar. Ég er að horfa á þá alvarlegu stöðu sem þarna er uppi.

Þjóðfélagið allt á mikið undir því komið að bankarnir og fjármálakerfið geti fótað sig. (Forseti hringir.) Ég horfi þar til einstaklinga, ég horfi til lífeyrissjóðanna, ég horfi til samfélagsins alls. Ég er að hvetja til þess að við horfum heildrænt á myndina en (Forseti hringir.) horfum ekki þröngt eins og mér fannst hæstv. fjármálaráðherra gera þegar hann var að derra sig af afrekum ríkisstjórnarinnar.