135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ísland á að móta sjálfstæða utanríkis- og friðarstefnu og á standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru best settir án hers hvort sem hann er innlendur eða erlendur.

Það má segja að þetta sé kjarninn í þeirri stefnumótun sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sett fram um sjálfstæða utanríkisstefnu og alþjóðamálin. Nú geri ég mér grein fyrir því að auðvitað eru ekki allir sammála um þessar áherslur en þetta endurspeglar og litar að sjálfsögðu þá afstöðu sem við höfum til viðfangsefnanna sem tekist er á við í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.

Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu. Hún er yfirgripsmikil og tekur á mjög mörgum atriðum. Ég vil fyrst segja almennt um utanríkisþjónustuna og hlutverk hennar, það sem hefur komið fram í umræðunni, að það sé mikilvægt að efla utanríkisþjónustuna og að það sé mikilvægt að reka virka utanríkisstefnu, að ég held að um þetta geti verið býsna breið samstaða á hinum pólitíska vettvangi. Ég vil líka segja það af kynnum mínum af starfsfólki utanríkisþjónustunnar sem eru allnokkur í gegnum mjög mörg ár, að ég tel að íslenska utanríkisþjónustan eða við Íslendingar búum yfir mjög öflugri og metnaðarfullri utanríkisþjónustu. Starfsfólkið þar sinnir verki sínu prýðilega og á þakkir skildar fyrir það. Þar eru mikilvæg verkefni innt af hendi fyrir land og þjóð og á ekki að gera lítið úr því óháð því þó að síðan geta auðvitað verið átök um hina pólitísku leiðir og línur og markmið sem farin eru hverju sinni.

Ég vil líka leggja áherslu á það af því að utanríkisráðherra sagði í ræðu fyrr í dag að breið samstaða virtist vera um að Íslendingar ættu einmitt að reka virka utanríkisstefnu. Ég tek undir þetta en jafnframt ítreka ég að það er ekki það sama að reka virka utanríkisstefnu og að reka sjálfstæða utanríkisstefnu. Það getur farið saman en það gerir það ekki sjálfkrafa. Ég tel mikilvægt að leggja áherslu á að við Íslendingar rekum sjálfstæða og virka utanríkisstefnu.

Hér hefur aðeins verið nefnt að það séu breyttar aðstæður í heiminum í alþjóðamálum og m.a. að því er lýtur að okkur á Íslandi og brottför hersins hafi skapað nýjar aðstæður. Það er rétt. Það hefur líka verið talað um að þessar nýju aðstæður hefðu átt að kalla á breiðari samstöðu um utanríkismálin heldur en verið hefur til þessa í íslensku samfélagi og utanríkismálin hafi því miður klofið þjóðina um sex áratuga skeið. Ég segi þá á móti að ég hefði líka gjarnan viljað að þau tækifæri hefðu verið nýtt og það er hægt að gera það enn þá, það er aldrei of seint að grípa slíkt tækifæri til þess að reyna að koma á eins víðtækri samstöðu innan þjóðarinnar og hægt er í þessum mikilvæga málaflokki. Því það er sannarlega mikilvægt að við stöndum saman eins og við mögulega getum í alþjóðlegu samhengi og á alþjóðavettvangi. Þess vegna kalla ég enn eftir því hvort og hvernig ríkisstjórnin hyggst t.d. efna það sem hefur verið sagt um samstarfið í öryggismálum. Það hefur verið upplýst hér að það skuli gera með einhverjum tveimur reglulegum fundum formanna stjórnmálaflokkanna á ári. Ég spyr hvort það sé endanlegt svar eða hvort ekki væri eðlilegt að menn kæmu saman að borði og kæmu sér saman um vettvanginn til þess að ræða öryggismál en það kæmi ekki bara í formi eins bréfs úr Stjórnarráðinu.

Gott og vel um þetta. Ég vil ræða aðeins um stækkun NATO og umræðuna sem hefur farið fram um þau mál. Það er alveg ljóst að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum andvíg aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og við erum andvíg hernaðarbandalögum. Að sjálfsögðu mótast afstaða okkar til þessa viðfangsefnis þá líka af þeirri staðreynd. Ríkisstjórnarflokkarnir eru annarrar skoðunar og þá kemur að sjálfsögðu að því að leiðir skilja í þessu efni.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að í þessu samhengi sé bent á umræðuna sem hér hefur líka verið komið inn á um vígbúnaðarkapphlaupið. Fyrst má kannski minna á það sem sagt hefur verið, að það er lýðræðislegur réttur þjóða, sjálfstæðra þjóða að fara fram á aðild að Atlantshafsbandalaginu. Það eru lýðræðisleg samtök, sagði hv. þm. Árni Páll Árnason. Ég spyr því hvort það sé þá þannig þegar lýðræðisríki koma saman og mynda með sér samtök að þá séu það endilega einhver voðalega lýðræðisleg samtök burt séð frá því hvað þau taka sér fyrir hendur.

Ég tel að hernaður geti aldrei verið lýðræðislegur í sjálfu sér. Vígbúnaðurinn og uppbygging vígtóla, hernaður hvort sem hann er í Afganistan, Írak eða hvar nú er er ekki lýðræðislegur í sjálfu sér. Og þessi starfsemi er ekki lýðræðisleg í sjálfu sér þó að það séu lýðræðisleg ríki sem hafa ákveðið að koma saman í einhverjum samtökum og reka þessa stefnu. Það er þetta sem ég vil leggja áherslu á í þessari umræðu og sem mér finnst að a.m.k. eigi að taka með í umræðuna þegar verið er að tala um stækkun Atlantshafsbandalagsins.

Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvort Georgía og Úkraína vilji eða eigi að ganga í Atlantshafsbandalagið. Að sjálfsögðu hafa þessi ríki rétt til þess að hafa á því einhverja eigin skoðun. En ég er þeirrar skoðunar að stækkun Atlantshafsbandalagsins sé röng pólitík, bara per se. Það væri nær að leggja Atlantshafsbandalagið niður sem hernaðarbandalag. Svo geta menn auðvitað rætt það sem kom fram í umræðunni, hvort nú væri verið að taka aftur upp umræðuna um áhrifasvæði Bandaríkjanna eða Rússlands og austur/vestur og eitthvað þess háttar. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé verið að gera það. En auðvitað er það áhyggjuefni ef stækkun Atlantshafsbandalagsins leiðir til meiri spennu í heiminum, m.a. á okkar svæði og í Atlantshafsbandalaginu eða Norður-Atlantshafsbandalaginu eins og það heitir nú þótt ekki sé nú mikið orðið eftir af norðrinu í því sambandi. En látum það nú vera. Það er í þessu samhengi sem mér finnst að við þurfum að taka þetta fyrir í umræðunni.

Ég ætla líka að nefna hluti sem er fjallað um hér og það eru viðskiptasamningar og tækifæri sem af þeim hljótast. Ég tel að í viðskiptasamningum og auknum viðskiptum felist sannarlega margvísleg tækifæri. Viðskipti milli þjóða geta verið lykillinn að friðsamlegri sambúð þjóða. Þau geta verið lykill að því að styrkja þróunarríki að vinna á þeim efnahagsvanda, hungursneyð, fátækt og öðru slíku sem þau eru að glíma við og það er mikilvægt að við leggjum því lið, að sjálfsögðu, en um leið er líka mikilvægt að hafa í huga að við festum ekki í sessi þá efnahagslegu gjá sem nú er á milli heimshluta. Við þurfum að binda endi á rangláta viðskiptahætti, arðrán, þannig að fátækar þjóðir geti brauðfætt íbúa sína án þess að ganga verulega á gæði jarða sinna. Við þurfum að sporna við því að alþjóðastofnanir eins og Alþjóðabankinn og Alþjóðaviðskiptastofnunin séu notuð í þágu aðila sem hafa sölsað undir sig almannaeignir í kjölfar einkavæðingar. Stundum að undirlagi eða með óbeinum stuðningi þessara stofnana þannig að um leið og við segjum að aukin viðskipti séu jákvæð og geti skapað margvísleg tækifæri þá verðum við líka að huga að þeim þáttum sem lúta að félagslegu réttlæti, félagslegri og efnahagslegri og réttlátri skiptingu og þess háttar.

Schengen hefur aðeins verið nefnt og ég vil ítreka það sem kom fram hjá formanni utanríkismálanefndar hv. þm. Bjarna Benediktssyni, að það sé mikilvægt að íslensk sendiráð geti gefið út Schengen-áritanir og ég heyrði að hæstv. utanríkisráðherra hefur tekið undir það. Spurningin er hins vegar hvað sé að gerast í því máli, og er hægt að knýja á um að einhver viðunandi niðurstaða náist í því? Í því sambandi má t.d. nefna sendiráðin í Indlandi og Rússlandi.

Það er að sjálfsögðu af mjög mörgu að taka. Tíminn hleypur frá mér eins og endranær. Ég vil aðeins nefna Palestínu. Í skýrslunni eru reifuð nokkur samskipti okkar í Miðausturlöndum á liðnu ári og ég vil kalla ríkara eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanríkisráðherra við sjálfstæðisbaráttu Palestínu.

Herra forseti. Rétt í lokin þá er það afstaða mín að Ísland eigi að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju og að starf okkar í utanríkismálum og alþjóðamálum eigi að byggjast á þessum forsendum og þá verður það að vera þannig algjörlega í gegn og við verðum að vara okkur á því að framkvæmdin á þessum góðu stefnumálum okkar (Forseti hringir.) þjóni ekki einhverjum öðrum hagsmunum.