135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:42]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að enginn ágreiningur sé á milli mín og hv. þm. Bjarna Harðarsonar í þessu máli. Ég hygg að við séum alveg sammála um að mjög mikilvægt sé að réttur Palestínumanna verði virtur. Það er hins vegar spurning hvort einhver meiningarmunur sé um mikilvægi ferðar hæstv. utanríkisráðherra til Palestínu á sínum tíma en ég er í sjálfu sér ekkert að lasta það.

Ég tel það mikilvægara fyrir íslenskan utanríkisráðherra að reyna að tala við vini okkar og bandamenn, Bandaríkjamenn, að þeir gæti þess að samþykkja ekki og kokgleypa alla hluti sem Ísraelsmenn gera í viðskiptum sínum við Palestínumenn. Ég hygg að þar sé kannski fyrsti þrándurinn í götu. Þar hafa menn farið fram með óeðlilegum hætti og samþykkt mannréttindabrot sem er mjög óeðlilegt og til vansa fyrir þetta ríki, auk þess sem Bandaríkin og einstakir borgarar þar standa meira og minna undir fjárhag Ísraelsríkis.

Það er alltaf spurning með hvaða hætti hægt er að þróa og koma hlutunum áfram. Ég átti þess kost fyrir tæpu ári að fá að kynna mér aðstæður í þessu stríðshrjáða landi. Þó að maður hefði lesið mikið um það hvernig hlutum væri fyrir komið og hvernig mannréttindabrotin væru var sjón sögu ríkari. Það er ólýsanlegt og veldur miklum hughrifum að koma að ófrelsismúrum þar sem fólki er meinað að eiga samskipti við annað fólk. Meðan ófrelsismúrinn stendur á Vesturbakkanum í Palestínu er með ólíðanlegum hætti verið að brjóta rétt á því fólki sem er innan múrsins og fær sig hvergi hrært.