135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[21:30]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það má vel fallast á að þetta frumvarp boði viss tímamót í sögu utanríkismála eða öryggismála á Íslandi og það hafa sannanlega ekki verið til í löggjöf landsins áður sambærileg lög. Hvort það eru svo að öllu leyti jákvæð tímamót og fagnaðarefni að hér séu sett fyrstu heildarlögin um hernaðarstarfsemi er annað mál.

Það er óhjákvæmilegt að skoða frumvarpið í þó nokkru samhengi við þær breytingar, utanríkispólitísku og sumpart heimssögulegu breytingar sem það í raun og veru tengist, þeim miklu breytingum sem orðið hafa í heimsmálunum að þessu leyti frá og með lokum níunda og upphafs tíunda áratugar síðustu aldar þegar Berlínarmúrinn féll, Varsjárbandalagið var lagt niður og Sovétríkin leystust í sundur. Í raun sköpuðust allt aðrar aðstæður í okkar heimshluta, hinu langa kuldatímabili kalda stríðsins lauk og þeirri gömlu föstu heimsmynd að heimurinn væri ógnarjafnvægi tveggja kjarnorkuvígbúinna stórvelda. Það er að sjálfsögðu ekki eftirsjá að því tímabili sem við sum hver hér ólumst upp á og tókum út okkar fyrsta þroska munandi þessa heimsmynd. Hættan á tortímingarstyrjöld grúfði þá yfir þótt því sé vissulega ekki svo vel farið að hún sé úr sögunni því að kjarnorkuvopnin eru að mestu leyti enn á sínum stað, því miður, þrátt fyrir samninga um að þeim skuli útrýmt.

Þegar við lítum til baka og veltum því fyrir okkur hvernig mönnum hefur tekist til að nota þennan tíma frá því um 1990 og fram til dagsins í dag til að leysa heiminn úr viðjum vígbúnaðarbrjálæðisins sem þá einkenndi hann, þá verður að segjast eins og er að það eru þó nokkur vonbrigði. Það komst á koppinn nýtt fyrirkomulag þar sem eitt stórveldi í staðinn fyrir tvö réði í raun og veru lögum og lofum og hefur algera hernaðarlega og að verulegu leyti efnahagslega yfirburði. Enda hefur það ekki látið á sér standa að menn hafi á þeim bænum, í Bandaríkjum Norður-Ameríku, meira og minna talið að þeir gætu gert það sem þeim sýndist í heiminum og þyrftu hvorki að spyrja kóng né prest að því hvernig þeir færu með sinn hernaðarlega eða efnahagslega styrk og hafa beitt honum ótæpilega. Það leit svo út um tíma að Bandaríkjunum væru allir vegir færir og þeir mundu í raun og veru ráða heiminum einir að þessu leyti. Gömlu evrópsku stórveldin voru mörg hver komin nokkuð að fótum fram, a.m.k. í hernaðarlegum skilningi og jafnvel í skilningi hnattrænna pólitískra áhrifa, og þó að ríki væru að koma undir sig fótunum í Asíu sem nokkuð máttu sín í þessum efnum þá skyggðu þau lítið á ægivald Bandaríkjanna á þessu sviði.

En heimurinn er fljótur að breytast líka og það á ýmsa vegu og auðvitað urðu Bandaríkin fyrir miklu áfalli, og það má segja heimurinn allur, 11. september 2001 þegar þessu mesta herveldi heimsins tókst ekki þrátt fyrir allan sinn búnað, alla sína fjármuni og allan sinn styrk að verja sig fyrir fólskulegri hryðjuverkaárás. Áfallið var mikið, pólitískt og sálrænt, fyrir stórveldið Bandaríkin og það er athyglisvert að rifja upp fyrstu viðbrögð Bandaríkjamanna og andrúmsloftið í heiminum fyrstu tvær, þrjár vikurnar eftir árásirnar á tvíburaturnana þar sem flest benti til þess að Bandaríkin ætluðu að breyta verulega um samskiptamáta og leita heimssamstöðu um aðgerðir til að tryggja öryggi í heiminum og verjast hlutum af því tagi sem þau höfðu þá sjálf orðið fyrir. Því miður entist það ekki lengi og harðlínuöflin náðu fljótt undirtökunum og í hönd fór stríð þeirra gegn hryðjuverkum og skilyrðislaus krafa um hlýðni undir kjörorðunum: Annaðhvort eruð þið með okkur eða þið eruð á móti okkur. Í framhaldinu var sprengjum látið rigna yfir Afganistan eins og við munum og síðan ráðist inn í Írak 2003 á upplognum forsendum. Þessu stríði gegn hryðjuverkum tengjast síðan margvísleg gróf mannréttindabrot, ólöglegt fangaflug, leynifangelsi, pyndingar, rekstur fangabúðanna í Guantanamo, svartlistanir samtaka og einstaklinga og gríðarlega aukin upplýsingasöfnun um almenna borgara. Það þrengir að friðhelgi og ferðafrelsi manna.

Þetta er kannski ramminn, virðulegi forseti, svo aðeins sé farið yfir hann, sem tengist brotthvarfi hersins á Miðnesheiði. Hann er að sjálfsögðu í nánum tengslum við það að kalda stríðinu lauk og herveldi og sérstaklega Bandaríkin endurmátu aðferðafræði sína og sáu ekki lengur tilgang í því að reka gamaldagsherstöð upp á Íslandi. Áherslan færðist yfir á hreyfanlegan liðsafla sem hægt væri að beita með skömmum fyrirvara hvar sem væri í heiminum. Þessa endurskoðun sína og þennan skilning fóru bandarískir ráðamenn að ræða við íslensk stjórnvöld upp úr 1990. Engu að síður var það nú svo, eins undarlegt og fráleitt sem það virðist vera, að það virtist eftir sem áður koma íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu þegar tilkynnt var um það á útmánuðum 2006 að herinn væri á förum. Viðbrögðin urðu satt best að segja vandræðaleg og handahófskennt hvernig til tókst í framhaldinu. Það er til marks um þetta fullkomna meðvitundarleysi íslenskra stjórnvalda sem ráðið höfðu fyrir málum árin þarna á undan að það virtist koma mönnum í opna skjöldu að Íslendingar áttu ekki einu sinni tæki og tól og búnað til að reka sinn langmikilvægasta flugvöll og voru í raun upp á náð og miskunn Ameríkumanna komnir með það að þeir fengju að yfirtaka frá þeim búnaðinn og reka flugvöllinn áfram með þeim hætti. Þessu tengdist það, ég orða það svo, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var svo brugðið á haustmánuðum 2006 að hún lofaði vönduðu þverpólitísku samstarfi um framhaldið og að allir flokkar mundu koma sameiginlega að því að móta viðbrögðin í framhaldinu og leggja nýjar áherslur hvað varðaði öryggis- og utanríkispólitík landsins.

Efndir á þessum loforðum hafa látið mjög á sér standa. Þær voru með öllu sviknar í tíð fyrri ríkisstjórnar og slíkt þverpólitískt samstarf komst aldrei á, var ekki einu sinni reynt, ekki tilburðir uppi til þess. Þó að sambærilegt ákvæði rataði inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar bólaði ekkert á efndum þess fyrr en í gærmorgun að okkur barst bréf, formönnum stjórnmálaflokkanna, um að þetta yrði efnt með þeim hætti að það yrði boðað til fundar tvisvar á ári með formönnum stjórnmálaflokka í landinu. Og með fullri virðingu fyrir okkur sem embætti skipum í dag þá er það nú ansi útþynnt og minna en ég hafði búist við og lagði skilning í að yrði þegar talað var um sameiginlegan öryggismálavettvang. Maður sá fyrir sér fast reglubundið samráð í formi nefndar, jafnvel vettvang þar sem starfsmenn og fagþekking byggðist upp í anda þess kannski að einhverju leyti sem öryggismálanefnd starfaði á sínum tíma, á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, hygg ég vera, og gaf út rit og safnaði ýmsum upplýsingum og hafði á að skipa aðstoð eða starfsmanni, þannig að að því var þó nokkurt gagn.

Það má segja að þetta hafi verið síðasta eiginlega viðleitnin til þess að eiga eitthvert þverpólitískt samráð um öryggismál og reyna að byggja einhverjar örlitlar brýr milli manna og flokka þrátt fyrir hin hörðu átök sem einkenndu þó oftast umræður um þá hluti á kaldastríðstímanum. Það er undarlegt að á tímum þar sem aðstæður hefðu væntanlega verið miklum mun auðveldari fyrir slíkt samráð eftir að kalda stríðinu lauk, ég tala nú ekki um nú eftir að herinn er farinn, þá hefur ekkert bólað á slíku. Það hafa því engar innstæður reynst, því miður, á bak við vilja og fyrirheit um að reyna eitthvað að vinna þessa hluti sameiginlega, skoða fleti og sætta þjóðina sem hefur eins og kunnugt er lengi, mest allan lýðveldistímann, verið mjög klofin í afstöðu sinni til þessara mála. Auðvitað voru það tilteknir gjörningar sem klufu hana í herðar niður, þ.e. koma erlends hers og þegar okkur var troðið inn í erlent hernaðarbandalag. Um utanríkispólitík landsins fram að því var mjög góð samstaða, um hlutleysisstefnuna, og á tímum sjálfstæðisbaráttunnar og fram yfir stofnun lýðveldisins var mjög góð samstaða um íslensk utanríkismál. Það var áfram mjög góð samstaða um íslensk utanríkismál þegar Ísland t.d. neitaði því að lýsa stríði á hendur Þjóðverjum til þess að geta gerst stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum af því að það væri brot á hlutleysisstefnu þjóðarinnar. Þessi samstaða var rofin með tilteknum pólitískum gjörningum eða valdbeitingu liggur mér við að kalla það, því að þjóðin var ekki spurð, fyrst og fremst 1949 og 1951. Hið sögulega tækifæri sem skapast hefur á síðastliðnum 18 árum eða núna síðastliðið eitt og hálft ár hefur ekki verið nýtt til að reyna að græða þessi sár og sameina þjóðina á nýjan leik.

Það sem ég gagnrýni sérstaklega er að á undanförnum þremur missirum eða svo hefur þvert á þessar yfirlýsingar og loforð um þverpólitískt samráð og þvert á tal um nauðsyn þess að skilgreina upp á nýtt stöðu Íslands, meta hættur og öryggisþarfir og leggja þannig grunn að nýrri stefnu, hafa málin verið sett í farveg og hinar pólitísku ákvarðanir teknar og má segja að það verði að nokkru leyti endanlegt ef Alþingi afgreiðir þessi lög. Svo á að fara að skoða hættuna, nefnd er nýfarin að starfa að því að skilgreina þarfir Íslands í þessum efnum. Það væri fróðlegt ef hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar útskýrði fyrir okkur af hverju þetta þarf að vera svona vegna þess að á síðasta kjörtímabili talaði Samfylkingin alveg endalaust um að það sem byrja ætti á að gera væri að meta hættuna, skilgreina varnarþarfirnar og gagnrýndi að slíkt skyldi ekki hafa verið gert, réttilega út af fyrir sig, en af hverju er þá farið öfugt í hlutina núna? Af hverju er fyrst ákveðið að hafa þetta svona, ganga NATO-væðingarbrautina á enda, semja við nágrannaþjóðir um heræfingar, taka stórfelld útgjöld inn á íslensku fjárlögin og svo á að fara að skoða hvort ástæða sé til þess, hvort þörf sé á því, hvort það sé einhvers staðar einhver óvinur sem hægt sé að nota til að réttlæta þetta?

Ég hef orðað það svo, ég tek eftir því að hæstv. utanríkisráðherra er búin að læra það, að hér sé um að ræða NATO-væðingu íslenskra utanríkis- og öryggismála, að í stað þess sem áður má alveg kalla ameríkaníseringu hafi komið NATO- og hervæðing og hún birtist í þessu frumvarpi með margvíslegum hætti. Það var t.d. þannig að allt fram á haust 2007 lá ekki ljóst fyrir hvort radarstöðvarnar yrðu reknar áfram. Það var svo einstaklega neyðarlegt að það var 1. ágúst 2007 sem starfshópur tók til starfa til að undirbúa yfirtöku Íslendinga á rekstri radarstöðvanna. En hvenær fór yfirtakan fram? 15. ágúst. Starfshópurinn hafði tvær vikur til að starfa. Svona var undirbúningurinn vandaður og þetta allt saman tímanlega og vel úr garði gert. Menn gátu í raun og veru engin sérstök rök fært fram fyrir því að það þyrfti að reka a.m.k. hernaðarlega hluta ratsjárkerfisins og gera ekki enn. Hvert sækja menn réttlætinguna? NATO vill það. Menn komu heim frá Brussel alveg ljómandi af gleði og sögðu: NATO vill að við rekum ratsjárstöðvarnar áfram og auðvitað gerum við það, NATO vill það. Það var aldrei skoðað t.d. með hvaða lágmarkskostnað við gætum sloppið ef við rækjum bara radarstöðvarnar vegna borgaralegs flug, þ.e. þær stöðvar sem taka á móti merkjasendingum frá borgaralegu flugi og lokuðum hinum. Það var aldrei skoðað.

Auðvitað er þetta hervæðing, þetta er lagasetning um hernaðarumsvif, þetta er endanleg NATO-væðing íslenskra utanríkis- og öryggismála og hún birtist m.a. í því að nú bólar hvergi á þeim fyrirvörum sem Íslendingar settu þegar gengið var í NATO á sínum tíma, og hafa sennilega aldrei verið formlega felldir úr gildi með ákvörðunum hér á Alþingi eða yfirlýsingum stjórnvalda. Á síðustu árum hefur Íslandi verið troðið inn í þá þætti NATO-starfseminnar sem við tókum ekki þátt í lengst framan af og um áratugaskeið. Þannig var það t.d. að Ísland tók ekki þátt í hermálasamstarfinu, að sjálfsögðu ekki í kjarnorkunefnd NATO, við borguðum ekki í mannvirkjasjóðinn og vorum á marga fleiri vegu mjög passífir þátttakendur í bandalaginu.

Nú er þessu öllu breytt og núverandi hæstv. utanríkisráðherra og flokkur hennar virðist leggja sérstakan metnað í að auka umsvif okkar og þátttöku í NATO á öllum vígstöðvum. Það kalla ég NATO-væðingu. Það er hið nýja NATO sem hér um ræðir, það er NATO aðgerðanna í Afganistan, það er NATO sem hóf loftárásir á Júgóslavíu, það er NATO sem hefur það beinlínis í stefnu sinni að beita sér og standa fyrir aðgerðum í fjarlægum heimsálfum ef svo ber undir, gjarnan þar sem Bandaríkjamenn hafa áður tekið til hendinni, ef svo má að orði komast. NATO er því að sumu leyti að verða að einhvers konar hreinsunardeild eftir Bandaríkjamenn, þar sem þeir hafa farið um heiminn með sínu geðslega ráðslagi. Þeir eru, eins og kunnugt er, mjög duglegir við að láta sprengjum rigna úr lofti ofan á vanþróaðar þjóðir.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði hér í dag að Afganistan væri fimmta fátækasta ríki í heimi, ekki rengi ég það, en það er þá aldeilis ríkið til að sprengja enn aftar í þróunarsöguna en það var þó fyrir. Það er einmitt það sem hefur verið gert. Eitt þróaðasta ríki Miðausturlanda sem var, Írak, var sprengt aftur á steinaldarstig, innviðir samfélagsins eyðilagðir, og svo eru menn hissa á að menn séu ekki velkomnir, alveg standandi hissa á að þeim sé ekki tekið fagnandi, hvort heldur sem er í Afganistan eða Írak.

Ég vil gera hér að umtalsefni kostnaðinn við þetta. Ég verð að segja eins og er að ég undrast það að sjálfstæðismenn, sem þykjast stundum hafa vit á peningum, sem þeir hafa auðvitað ekki, enda eru þeir að drekkja þjóðinni í skuldum, hafa það þó uppi, hafa það í munninum, að þeir vilji ekki þenja ríkisbáknið út. Báknið burt, var einhvern tímann sagt. Hvað er að gerast hér? Er báknið að fara burt? Nei, hér er sko verið að búa til nýtt bákn upp á milljarða króna. Í Bandaríkjunum eru frjálshyggjumenn svo miklir alvörufrjálshyggjumenn að þeir eru á móti hernaðarumsvifum. Þeir segja: Þetta er ríkisbúskapur, þetta er útþensla ríkisins. Það eru svo ægilegir skattpeningar sem fara í Pentagon að við viljum þetta ekki. En hvar eru sjálfstæðismenn hér? Þeir láta Samfylkinguna leiða sig í þennan útþensluleiðangur báknsins.

Nú þegar eru 1,5 milljarðar inni á fjárlögum. Ég ætla að gerast sá spámaður að haldi fram sem horfir verði það orðnir 3,5 til 5 milljarðar áður en við lítum við, og 2 til 3% af þjóðartekjum farin í þessa vitleysu, auðvitað er þetta ekkert annað en vitleysa og óþarfi. Það sést best á því að allt þetta brölt, heræfingarnar, rekstur ratsjárstöðvanna, Varnarmálastofnunin og svæðin þar, á bara að eiga við á friðartímum. Ef ófriðlega horfir er það Kaninn sem á að koma og verja okkur. Þetta er bara til að leika sér á meðan allt leikur í lyndi, á meðan það er friður. Hvernig gengur að selja mönnum þetta?

Ég spái því að það fari að hitna í kolunum þegar það rennur upp fyrir þjóðinni að ráðamenn hennar, sem geta nú orðið ekki ferðast nema í einkaþotum, ætli að fara svona með skattfé á sama tíma og ekki er hægt að standa almennilega að geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Við munum ekki láta okkar eftir liggja að koma því á framfæri að hér er verið að bruðla með fé. Alveg sérstaklega vegna þess að það hefur aldrei verið lagt niður hvað af þessu er nauðsynlegt og hvað ekki. Það væri þó strax skárra ef menn hefðu einhverja kortlagningu á því, ef þeirri vinnu sem nú er að fara af stað væri lokið og þetta væri á grundvelli þess að menn segðu að óhjákvæmilegt væri að bera af þessu einhvern kostnað.

Í plagginu stendur að vegna þess að Ísland hafi ekki her verði það að eiga samstarf við aðrar þjóðir um varnir sínar og láta aðrar þjóðir halda hér uppi hervörnum. Hvenær var það sannað? Gera allar þjóðir það? Nei. Vaxandi fjöldi ríkja hefur ekki her og byggir öryggisgæslu t.d. upp með öflugri lögreglu. Þannig er það með ríki í Mið-Ameríku og fleiri, Kostaríka og Panama hafa bæði lagt niður sinn her og hefur gengið einna best af öllum þeim ríkjum að tryggja frið og stöðugleika. Álandseyjar hafa verið afvopnað svæði í 150 ár og reynst það alveg prýðilega, hafa um það griðarsamninga við nágranna sína að þeir muni aldrei leyfa neina nýtingu landsins né neina uppbyggingu þar sem geti nýst til hernaðar og eru í staðinn látnir í friði. Það væri kannski athugunarefni að velta þessu fyrir sér og það væri mikið ódýrara, hv. þm. Bjarni Benediktsson, ef við gætum leyst málin á þann hátt, án slíkra útgjalda. Ef það kæmi nú í ljós að við gætum rekið borgaralegt ratsjárkerfi til flugleiðsagnar fyrir kannski 1/5 af þeim kostnaði sem fer í þessa vitleysu væri þá ekki til nokkurs unnið?

Ef við veltum fyrir okkur íslenskum öryggishagsmunum, í hverju þeir eru fólgnir, er það flest annað en þetta sem ég held við ættum að byrja á að nota peningana í. Almenna löggæslan er að drabbast svo niður að það er til háborinnar skammar, einn bíll á vakt í Árnessýslu. Það kemur lögregla til Grindavíkur með höppum og glöppum og ævinlega er komið sms á línuna löngu áður en hún kemur þangað, það sem þarf að fara í felur hefur nógan tíma til þess. Þannig er ástandið, það er engin grenndargæsla. En það eru til peningar í þetta rugl. Eða björgunarsveitirnar, mætti ekki búa betur að þeim? Efla almannavarnir? Nei, ætli það sé ekki þannig að hún Katla gamla sé meiri ógn við öryggi okkar en þessar bábiljur? Að það þurfi að fara að taka milljarðaútgjöld inn á fjárlögin vegna ímyndaðrar, mögulegrar árásar utan frá á Ísland. Hver á að ráðast á okkur? Er hægt að fá það uppgefið? Eru það Rússarnir sem forsætisráðherra var að skamma í framhjáhlaupi í Búkarest? Sem eiga fyrir bensíni á vélarnar í tvær, þrjár ferðir á ári.

Ekki er ástæða til að hafa mörg orð af okkar hálfu um efni frumvarpsins og einstakar greinar þess, einfaldlega vegna þess að við erum andvígir því, bæði vegna þess sem í því er og þó sérstaklega þeirrar starfsemi sem það er rammi um. Við sjáum ekki ástæðu til að setja lög um stóraukin hernaðarútgjöld, hervæðingu og NATO-væðingu íslenskra utanríkis- og öryggismála.

Ég hlýt þó að nefna það hér að frumvarpið sjálft er illa samið eins og reyndar kom fram aftur og aftur í framsöguræðu formanns utanríkismálanefndar, meiri hlutinn sat þar yfir því að reyna að koma í það einhverju viti. Ég lagði svo sem mitt af mörkum í þeim efnum, benti á ýmsar mótsagnir í því sem ég viðurkenni fúslega að meiri hluti hv. utanríkismálanefndar er að glíma við að laga en tekst þó kannski ekki mjög vel til enda ekki auðvelt.

Einn megintilgangur frumvarpsins, sá að draga skýr mörk á milli hernaðarlegra og borgaralegra verkefna, lendir t.d. í svo grenjandi mótsögn í næstu greinum frumvarpsins að það hálfa væri nóg. Ríkislögreglustjóri bendir á þetta, leggur til að höfð sé mjög ströng og hörð skilgreining, að það séu bara hernaðarlegar ógnir sem Varnarmálastofnun og utanríkisráðuneytið taki til, en það tekst nú ekki aldeilis. Það er eiginlega dásamlegast að lesa það upp þegar utanríkisráðuneytið reyndi að svara umsögn ríkislögreglustjóra og ætlaði að útlista það fyrir okkur hvernig þessi hreini aðskilnaður væri. Það var þannig orðað varðandi Varnarmálastofnun, með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun telst, samkvæmt framansögðu, borgaraleg stofnun sem mun að meginstefnu til sinna varnartengdum verkefnum sem teljast ekki borgaraleg í eðli sínu.“

Varnarmálastofnun telst, samkvæmt framansögðu, borgaraleg stofnun sem mun að meginstefnu til sinna varnartengdum verkefnum sem teljast ekki borgaraleg í eðli sínu. Hin borgaralega stofnun sinnir að meginstofni til varnarverkefnum sem teljast ekki borgaraleg í eðli sínu. Ég óska höfundum textans til hamingju, þeir eru kannski í hliðarsölum hér einhvers staðar.

Auðvitað er veruleg skörun í báðar áttir, frá Varnarmálastofnun inn í borgaralega starfsemi og frá ríkislögreglustjóra og sumpart Landhelgisgæslunni í hina áttina. Því miður hefur verið í gangi viðleitni til að þvæla þessum hlutum saman á undanförnum árum og það hef ég margoft gagnrýnt.

Annað meginmarkmið frumvarpsins átti, samkvæmt 1. gr., að vera að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdaatriða. Það tókst ekki glæsilegar en svo að það sem sagt var í 1. gr. var brotið í 3. gr. Því þar stendur að utanríkisráðherra móti stefnu um framkvæmd. Átti ekki að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdar? Jú, en samt á utanríkisráðherra að gera hvort tveggja í einum graut. Meiri hlutinn leggur skiljanlega til að þessu sé breytt, þetta stingur í augu og gengur ekki. En dugar þó skammt.

Ég get nefnt annað dæmi þar sem frumvarpið er með ólíkindum aulalega samið að þessu leyti, og það er utanríkisráðherra sem ber ábyrgð á því. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi í aðalatriðum samið þetta sjálf. Það er þegar talað er um gistiríki eða gistiríkisstuðning — og munum aðskilnaðinn á milli borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi. Hvað segir þar, herra forseti: „Gistiríkisstuðningur: Aðstoð borgaralegs og hernaðarlegs eðlis.“ Á ekki að aðskilja þetta, hv. formaður utanríkismálanefndar? Hvernig stendur þá á þessu? Hver framkvæmir gistiríkisstuðninginn? Það hljóta þá að vera tveir aðilar úr því að þetta er bæði borgaralegt og hernaðarlegt. Nei. Í 5. tölulið 7. gr. er framkvæmd gistiríkisstuðnings íslenskra stjórnvalda talin með verkefnum Varnarmálastofnunar. Hér rekur sig hvað á annars horn. Þetta er alls ekki svona og hefur ekki tekist í þessu frumvarpi enda held ég að það hafi aldrei verið ætlunin í raun og veru. Menn vilja hafa þetta meira og minna eins og þeir hafa alltaf haft það, að gera það sem þeim sýnist á laun og bak við luktar dyr í sambandi við hermangið. Þannig hefur það alltaf verið og á greinilega að vera áfram.

Frumvarpið er þarna út úr öllu korti og þar er margt fleira mjög athugunarvert og í raun ámælisvert. Ég ætla að lokum að nefna upplýsingamiðlunina. Það er umhugsunarefni að Varnarmálastofnun virðist ekki einungis eiga að taka á móti heldur einnig greina leyniupplýsingar frá NATO, utanríkisráðuneytið er líka farið að taka á móti slíkum upplýsingum í sérstöku leyniherbergi í kjallaranum. En í 23. gr. segir um úrvinnslu og miðlun upplýsinga, með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun annast úrvinnslu upplýsinga úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins og erlendra samstarfsaðila sem stofnunin hefur aðgang að. Stofnunin skal leitast við að skilgreina hættur sem kunna að steðja að íslensku yfirráðasvæði og íslenskum ríkisborgurum …“

Hvert er Varnarmálastofnun komin þarna? Ég held að ríkislögreglustjóra hafi yfirsést þetta. Og áfram segir, með leyfi forseta:

„… m.a. vegna hernaðarumsvifa eða sambærilegs alvarlegs hættuástands.“

Þarna er verið að taka inn lagagrein sem í raun og veru, ef hún er þannig túlkuð, heimilar Varnarmálastofnun að verða að nýrri leyniþjónustu og öryggisþjónustu hersins. Það er þannig. Og hún á meira að segja að skilgreina hættur sem kunna að steðja ekki bara að íslensku yfirráðasvæði heldur að íslenskum ríkisborgurum.

Eitt af því sem síðan hefur verið gefið í skyn er að frumvarpið eigi að tryggja lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi. Hvar er það? Verður sett opinber stjórn yfir Varnarmálastofnun? Verður þar eftirlitsnefnd? Er einhver eftirlitsnefnd? Er varnarmálanefnd sett á fót? Nei, ekkert slíkt er gert. Vísað er í það, eins og venjulega, að þetta eigi að leysa í gegnum utanríkismálanefnd. Það fer nú að verða handleggur að sitja í utanríkismálanefnd, herra forseti. Alltaf er vísað í hana þegar menn þurfa að verja sig fyrir einhverju af þessu tagi. Hún á að stórauka umsvif sín á sviði Evrópumála. Hún á að fara að taka þróunaraðstoðarmál upp á sína arma í miklu ríkari mæli en verið hefur og svo á hún að hafa eftirlit með öllum sköpuðum hlutum. En auðvitað er það ekki þannig enda er nákvæmlega sami leyndarumbúnaðurinn utan um þetta og alltaf hefur verið. Ég spái því, því miður, og tala af langri reynslu, að utanríkismálanefnd muni þurfa að draga allar upplýsingar með töngum út úr utanríkisráðuneytinu og þessu batteríi ef það verður, illu heilli, sett á laggirnar.