135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

staða samninga um svæði við Svalbarða og Hatton-Rockall.

335. mál
[12:14]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, hér eru á ferðinni mjög mikilvæg mál, bæði staða mála á Svalbarða og Hatton-Rockall svæðinu. Það væri líka hægt að nefna hafsbotnsréttindin á Reykjaneshrygg sem líka eru mikilvæg og þess vegna er brýnt að við höldum vel á þessum málum öllum. Þegar upp er staðið snúast þau um auðlindir og hlutdeild í mögulegum auðlindum á hafsbotninum og undir hafsbotninum sem getur skipt verulegu máli, þegar í dag en ekki síður þegar til framtíðar er litið. Þar er horft til gass og olíu en ekki síður til ýmissa erfðaefna sem munu verða mikilvægar auðlindir í framtíðinni.

Ég leyfi mér að halda því fram að það sé haldið vel á þessum málum í utanríkisráðuneytinu og það sé mikill metnaður í utanríkisráðuneytinu til að standa vel að málum sem varða hafréttinn. Þar eigum við heilmikla sögu og höfum stöðu á alþjóðavettvangi sem er mikilvægt að við höldum. Það er brýnt að við höldum vel á þessum málum og gerum það með íslenska hagsmuni í huga. Það vil ég leyfa mér að segja að sé gert af hálfu utanríkisráðuneytisins.

Varðandi Svalbarða er það ekki frosið mál. Því er haldið vakandi og það er mikilvægt eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við höldum þrýstingnum á Norðmönnum í þessu máli og að þeir viti að það er vakandi hjá okkur og að við getum auðvitað hvenær sem er farið af stað með það. Það eru engar fyrningar í því máli.