135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

502. mál
[13:09]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart að þingmenn sem hér hafa komið upp séu að reyna að rugla fólk í ríminu. Hér er ekki verið að tala um nákvæmlega sama mál. Ég er einfaldlega ósammála áliti umboðsmanns Alþingis miðað við gildandi lög. Ég hef ekkert breytt stefnu minni sem ég hef talað fyrir í nokkur ár á þingi og mér finnst miður ef hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir heldur því fram að ég sé tvísaga í þessum málum, það er ekki rétt. Ég hef alltaf sagt að pólitísk stefna mín varðandi listnámið í landinu sé sú að grunn- og miðstigið eigi að vera hjá sveitarfélögunum og framhaldsstigið hjá ríkinu. En það verður ekki að óbreyttum lögum.

Það verður ekki fyrr en sveitarfélögin og ríkisvaldið geta komið sér saman um þetta. Ábyrgðin er ekki á herðum ríkisins í þessu efni. Það eru sveitarfélögin sem hafa borgað fyrir tónlistarnámið fram til þessa og það verður að breyta lögum til þess að við breytum þessu fyrirkomulagi í þá átt sem ég tel vera skynsamlega eins og ég hef getið um fram til þessa. (Gripið fram í.) Ég tel hins vegar að það sé mikilvægt að draga þetta fram því hér inni eru þingmenn sem m.a. hafa talað um að framhaldsskólinn ætti að færast yfir til sveitarfélaga. Gott og vel.

Ég hef líka sagt það hér úr þessum ræðustól. Það er í rauninni ekki mikilvægasta málefni fyrir mig að ríkisvaldið reki alla framhaldsskóla á landinu, alls ekki. Aðalmálið er að reka öfluga framhaldsskóla sem sinna því starfi og þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar. Ég tel hins vegar dæmið varðandi tónlistarkennsluna vera gott dæmi um það að ég held að það verði lífsins ómögulegt fyrir sveitarfélögin að reka framhaldsskóla ef þau geta ekki leyst þessi málefni tónlistarskólanna. Nemi úr Hafnarfirði sækir nám hingað í Reykjavík og það fer allt í háaloft — ef sveitarfélögin geta ekki leyst úr slíkum einföldum álitaefnum er ekki hægt að færa framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Það er ekkert hægt fyrr en þessi minni mál, ef svo má að orði komast, eru leyst. (Gripið fram í.) Það á að leysa málið þannig að grunn- og miðstigið verður hjá sveitarfélögunum, hitt verður hjá ríkinu en það verður að breyta lögum og þess vegna er ég ósammála áliti umboðsmanns Alþingis sem og aðrir lögfræðingar, og það má alveg halda áfram.