135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

áskoranir frá Bandalagi íslenskra listamanna.

509. mál
[13:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin. Í máli hennar kom fram að hún væri hálffeimin við að setja fram menningarstefnu af því að það komi til með að geta heft sveigjanleika hennar í störfum. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra hvað það varðar. Ég tel mjög mikilvægt að ráðherrar og ríkisstjórnin öll átti sig á því hvert beri að stefna í menningarmálum, að við reynum að koma í veg fyrir handahófskennda stefnu í þeim efnum og að fjármunum sé varið handahófskennt til menningar og lista.

Ég bendi á fordæmin. Ég bendi á Listahátíð í Reykjavík. Þar hefur verið fylgt mjög meðvitaðri menningarstefnu undanfarin ár en það heftir ekkert svigrúm hátíðarinnar heldur gerir það þau skref sem eru stigin markvissari. Ég tel að slíkt geti líka orðið upp á teningnum og mundi verða upp á teningnum ef ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra settu sér menningarstefnu af því tagi sem Bandalag íslenskra listamanna óskar eftir.

Varðandi hið einfalda skattkerfi sem hæstv. ráðherra er fylgjandi og ákvörðun hennar um að ég beini fyrirspurninni frekar til hæstv. fjármálaráðherra þá mun ég að sjálfsögðu gera það. En það er gott að hafa í veganesti hið jákvæða viðmót sem mér þótti stafa af svörum hæstv. ráðherra.

Í þriðja lagi, varðandi starfslaun, er gott að heyra að hún átti sig á því og vilji skoða starfslaunamálin. Það er ekki viðunandi að fjölgun hafi ekki orðið á þeim sem fá starfslaun í 11 ár. Það hlýtur að vera orðið meira en tímabært að skoða eflingu á því kerfi og tryggt, eins og hæstv. ráðherra segir, að unga fólkið fái sinn eðlilega skerf af þeim starfslaunum og að nýjar greinar rúmist þarna innan.

Lengi hefur verið kallað eftir því að Listasjóður verði endurnýjaður og markmið hans endurskilgreint því eins og er safnast of margar listgreinar í sjóðinn (Forseti hringir.) og ég tel nauðsynlegt að fara að greina hann í sundur að einhverju leyti.