135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Íslendingur í einangrunarvist í Færeyjum.

[10:42]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Fíkniefnasala er jú dauðans alvara og það er ævinlega meginskylda ráðamanna að gæta mannréttinda og réttarfars sem byggja á því að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð. Refsingin er auðvitað dómstóla að ákveða en ekki ákærenda og er það kunnara en frá þurfi að segja.

Dómstólar á Íslandi hafa ekki veitt þvílíkar heimildir til einangrunarvistar í sambærilegum eða sömu málum hér á landi eins og gert hefur verið í þessum málum í Færeyjum. Þetta verklag orkar mjög tvímælis eins og ráðherra nefndi, enda hafa dómar sem byggt hafa á vitnisburði manna sem hafa verið píndir með slíkum hætti verið marghraktir á síðustu árum í Evrópu. Það er því full ástæða til að hvetja utanríkisráðherra og kollega hennar á Norðurlöndum til dáða í því að samræma verklag í slíkum málum.