135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

framganga lögreglu gagnvart mótmælendum.

[10:45]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið en hlýt þó að inna hann eftir því hvort hann kunni einhverja skýringu á svo ólíkri framkvæmd laga frá ári til árs. Það blasir við hverjum manni að hér er með ákaflega ólíkum hætti tekið á borgurunum við það að standa fyrir lýðræðislegum mótmælaaðgerðum gegn einhverju því í stjórnarfarinu sem þeir eru ósáttir við.

Ef ekki er um að ræða stefnubreytingu af hálfu ráðuneytisins eða löggæslunnar í landinu spyr ég hvort hann kunni þá einhverjar aðrar skýringar á þessu. Það er grundvallaratriði í réttarríki að fyrirsjáanleiki sé í réttarríkinu og fyrirsjáanleiki í löggæslunni. Ég tel mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra tjái sig um málefnið einmitt vegna þess að borgararnir verða að geta gengið að stefnunni í þessum efnum vísu.