135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:14]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. „Heilsufar Íslendinga er öfundsvert.“ Þannig hefst niðurstöðukafli skýrslu OECD, IV. kaflinn, sem fjallar um heilbrigðismál. Já, svo sannarlega, við stöndum okkur vel samkvæmt öllum þeim mælikvörðum sem þar er beitt. Niðurstaða skýrslunnar er: Gott heilbrigðiskerfi sem skilar mælanlegum árangri, betri lífslíkur, meiri lífsgæði, fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta, vel menntaðir heilbrigðisstarfsmenn.

Í öðru lagi er niðurstaða skýrslunnar sú að við fylgjum Skandinavíu þegar kemur að útgjaldamælingu, notum 9–9,5% af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála. Við fylgjum þeim líka í útgjöldum á mann, lendum þar á milli Noregs annars vegar og Svíþjóðar og Danmerkur hins vegar. Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála teljast nú 7,7% af landsframleiðslu en eins og ég sagði áðan eru heildarútgjöldin 9,5%. Þessi mismunur, 17%, er það sem sjúklingar greiða beint úr buddunni og sú tala hefur því miður farið hækkandi.

OECD bendir á að eðlilega þurfi að gæta fyllsta aðhalds í útgjöldum til heilbrigðismála ekki síður en við annars konar ríkisútgjöld.

Hverjar eru tillögur OECD? Að afnema hömlur á þjónustu einkaaðila, opna fyrir samkeppni í heilbrigðisþjónustu, koma á kostnaðarþátttöku sjúklinga þar sem hún er ókeypis nú eins og er á sjúkrahúsunum, og forgangsraða í heilbrigðisþjónustu.

Við vinstri græn segjum nei takk við þessum „trakteringum“ frá OECD alveg eins og við segjum nei takk við því að taka húsnæðisþáttinn út úr vísitölunni, taka ríkisábyrgð af lánum Íbúðalánasjóðs, selja orkuframleiðslu Landsvirkjunar og krefjast frekari undanþágna til stóriðju — eins og OECD-skýrslan gerir tillögu um öðrum í köflum.

Okkar svar er þetta: Til þess að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi sem mismunar ekki einstaklingum eftir efnahag og búsetu þarf að efla forvarnir á öllum sviðum, (Forseti hringir.) styrkja umönnun heima og á stuðningsheimilum, hækka laun umönnunarstétta og styrkja heilsugæsluna sem fyrsta stig í heilbrigðisþjónustunni, sérstaklega hér (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu.