135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[13:56]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg um þessa ágætu tillögu til þingsályktunar um skáksetur helgað Friðriki Ólafssyni og Bobby Fischer.

Það er mikið talað um möguleika Íslands í ferðaþjónustu, hvernig við getum laðað útlendinga hingað til lands og hvað fleira markvert mætti sýna þeim en nú þegar er gert. Í augsýn er glæsilegt mannvirki í Reykjavík, hið nýja tónlistar- og ráðstefnuhús. Það mun án efa nýtast vel við uppbyggingu ferðaþjónustu, en um leið og litið er til bygginga og lagt er á ráðin um frekari byggingar víða um landið verður — og er rétt — að horfa sérstaklega til afreksmanna okkar og einstakra atburða í sögunni. Slíkum mönnum og atburðum eigum við að halda á lofti.

Fram undan er afmæli Jóns Sigurðssonar forseta, en árið 2011 verða 200 ár liðin frá fæðingu hans. Ég veit að minningu hans verða áreiðanlega gerð góð skil á því ári en ég vil beina því til þeirra sem með málið fara, þ.e. sjá um afmæli Jóns forseta, að horfa á Alþingishátíðina 1930 þegar við Íslendingar, fátæk þjóð, full sjálfstæðiselju, héldum Alþingishátíðina og gerðum það svo einstaklega vel að okkur hefur aldrei síðar tekist að halda hátíð með þvílíkum sóma sem þá var.

Við eigum Friðrik Ólafsson sem hefur alið af sér breiðar kynslóðir skákmeistara. Að öllum öðrum ólöstuðum má vísast kalla hann föður íslensku skákarinnar. Ég var barn þegar skákmótið mikla var haldið árið 1972 en það er mér mjög í fersku minni þegar ég hélt í höndina á föður mínum meðan við gengum niður í Laugardalshöll og horfðum á taflmennsku og ég dáðist að íþróttinni þótt ég skildi harla fátt. Þessi atburður varð heimsþekktur og hans á að minnast.

Þegar Bobby Fischer lenti í þeim miklu hremmingum sem síðar urðu komum við honum til hjálpar og kannski til þess að þakka honum eða launa honum sumarið góða. „Hvaða önnur þjóð en Ísland hefði gert þetta?“ stóð í virtu erlendu blaði. Mér finnst vel við hæfi að alþjóðlegt skáksetur verði reist í Reykjavík og styð það eindregið og það sé helgað þessum miklu skákmeisturum. Þótt tillagan gangi út á að Reykjavík verði skákhöfuðborg árið 2010 langar mig samt að varpa fram þeirri hugmynd hvort möguleiki væri að tengja þessa atburði með einhverjum hætti, tengja þá miklu sögu sem tengist skákinni 2010 hinu merka afmæli hugsuðar okkar og sjálfstæðishetju Jóns Sigurðssonar.