135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:15]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Það er að mínu mati löngu tímabært að tala um þau málefni sem hér eru á dagskrá og það þá í meira svigrúmi en er gert í stuttum utandagskrárumræðum. Eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur rakið var það mjög ánægjulegt strax í haust að þessi málaflokkur varð eitt af forgangsverkefnum nýskipaðrar ríkisstjórnar. Fram kemur í upplýsingum hæstv. ráðherra að mörgu hefur nú þegar verið hrundið í framkvæmd.

Ég vil af þessu tilefni koma því sjónarmiði á framfæri að þetta viðfangsefni sem kallast geðræn vandamál barna og ungmenna er í sjálfu sér miklu stærra og umfangsmeira en það sem snýr að BUGL sérstaklega eða einstaklingunum sem í hlut eiga. Geðræn vandamál eru víðtækt hugtak, þau eru af margvíslegum toga, hin geðrænu vandamál, og eru veikindi sem stafa mjög oft af ytri aðstæðum, svo sem félagslegum kringumstæðum í skóla, á heimili eða í umhverfi. Á þessum vettvangi þarf að líta heildstætt á málið, efla foreldraráðgjöf, taka á vandanum innan hinna almennu skóla, virkja heilsugæslustofnanir og efla fjölskyldufræðslu. Það þarf að efla fyrirbyggjandi starfsemi, kenna viðbrögð, rýna orsakir og bregðast við áður en í óefni er komið. Geðræn vandamál eru nefnilega ekki alltaf vandi viðkomandi einstaklings, heldur sprottin af aðstæðum sem einstaklingur ræður ekki við. Þau er hægt að fyrirbyggja oft og tíðum eða leysa með aðstoð og viðbrögðum fagfólks ef þau eru nýtt og á fólk hlustað. Að því þarf að vinna (Forseti hringir.) samkvæmt stefnumótun heilbrigðisyfirvalda.