135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

fjárveitingar til úrbóta á sviði geðverndar barna og ungmenna.

[15:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur þetta verið viðfangsefni þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og það hefur líka komið fram að síðasta ríkisstjórn lét þessi mál til sín taka, m.a. með sérstakri fjárveitingu fyrir nokkrum árum sem var á annan milljarð kr. Alþingi hefur sagt sitt í þessum efnum með því að samþykkja þingsályktun um þessi málefni fyrr á þessu þingi.

Það er greinilegt að sá vandi sem komið hefur fram á síðustu árum varðandi geðheilbrigði barna og unglinga hefur komið mönnum verulega á óvart, umfang hans og alvarleiki, og heilbrigðiskerfið hefur verið í nokkrum vanda við að takast á við þetta verkefni og e.t.v. ekki búið að finna bestu leiðirnar til að veita þeim úrlausn og þjónustu sem á henni þurfa að halda. Þó er engum blöðum um það að fletta að það er mikill vilji til þess af hálfu allra aðila sem að þessu koma, stjórnmálamanna sem heilbrigðisstétta, að hraða þeim aðgerðum sem þörf er á að hrinda í framkvæmd, fara í gegnum skipulagsferla í kerfinu og ákveða hver geri hvað og hvenær og leggja til þess fé og aðstæður sem þarf.

Það þarf að opna kerfið fyrir fleiru en stofnanavist. Það er ekki upphaf og endir allrar heilbrigðisþjónustu að horfa á Landspítalann þó að hann sé mikilvægastur allra í kerfinu sjálfu. Það vantar aðkomu sálfræðinga að þessu. Í þetta vantar, eins og kom fram í máli hv. þm. Ellerts B. Schrams, aðkomu annarra aðila eins og fjölskyldna, það þarf að huga að búsetuúrræðum þeirra sem í hlut eiga og fleira af því tagi. Víst er að (Forseti hringir.) mikið verk er óunnið og það vantar töluverða peninga enn þrátt fyrir það sem þegar hefur verið gert.