135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[19:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er viss um að ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir erum farin að hljóma eins og gamlar bilaðar plötur. Hún kemur og endurtekur vitleysuna og ég reyni af bestu getu að leiðrétta hana. Hv. þingmaður segir að það sé verið að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð. En hver er staðan? Hún er svona: Ef leyfi sem veitt er af Orkustofnun er umdeilt, ef einhver einn aðili fellur undir þá skilgreiningu, sem ég hef áður lýst og er ákaflega víð og rúm, ef einn er óánægður með leyfið getur hann kært það til iðnaðarráðherra.

Ég spyr hv. þingmann í fyrsta lagi: Er það ekki pólitísk ábyrgð sem sá ráðherra, hver sem situr, þarf að taka á sig þegar hann veitir úrskurð sinn endanlega, er það ekki pólitísk ábyrgð? Ef hv. þingmaður telur að svo sé ekki þá er ég ekki viss um að ég og hún séum að tala sama tungumálið.

Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að sé það eins og hv. þingmaður segir, og það kann að hafa verið þannig í einhverjum tilvikum, að rannsóknarleyfi jafngilti eyðileggingu á landi, eins og hv. þingmaður staðhæfir, þá getur það einungis hafa gerst í þeim tilvikum að ekki sé farið að lögum. Rannsóknarleyfi felur ekki í sér undanþágu frá gildandi lögum um lagningu vega, byggingu húsa, um akstur utan vega o.s.frv. Svo einfalt er það. Um það gilda lög í landinu. Því er með engu móti hægt að halda því fram að rannsóknarleyfi jafngildi eyðileggingu á landi, fari menn að lögum. Ég skal ekki fullyrða um að menn hafi alltaf farið að lögum en þeir gera það núna.