135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hv. þingmaður gefur okkur tækifæri til að ræða þetta mál aðeins einum degi áður en við ræðum mikilvægt frumvarp sem liggur fyrir þinginu að ræða á morgun um opinbera háskóla. Þar hlýtur þetta mál eðlilega að koma á dagskrá. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, ef hv. þingmaður hefur kynnt sér það frumvarp, að þar er ekki minnst á skólagjöld í opinberum háskólum. Þar af leiðandi er engin tillaga fyrir þinginu um það að tekin verði upp skólagjöld í opinberum háskólum. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður hafði eftir mér í Fréttablaðinu sem birt var í því blaði á sunnudaginn að það er verkefni stjórnarflokkanna og ég trúi okkar allra hér inni að tryggja jafnstöðu háskólanna. Hvaða leið er best til þess er hins vegar rétt að skoða fordómalaust. Lykilatriðið í þeirri umræðu er að jafnstaðan sé tryggð og jafnrétti til náms sé tryggt. Ég vil leyfa mér að segja að því miður er ekki 100% jafnrétti til náms í dag vegna þess að við tökum skólagjöld nokkuð óskipulega í okkar kerfi. Ég held að það sé afar mikilvægt að við förum yfir það mál frá a–ö hvernig við viljum hafa það til framtíðar og það sé gert á skipulegan hátt en ekki tilviljunarkenndan eins og því miður hefur verið gert allt of lengi.

En ég ítreka: Grundvallaratriðið er að sjálfsögðu það að jafnrétti til náms sé tryggt. Við getum auðvitað velt upp þessum spurningum: Er eðlilegt að skólagjöld séu tekin af ýmsu námi t.d. á framhaldsskólastigi? Er eðlilegt að skólagöld séu tekin af öllu listnámi á háskólastigi á meðan það er ekki gert af ýmsu öðru námi? Ég held að við þurfum að setja ramma utan um þetta mál og við eigum að nálgast það fordómalaust með það sem grundvallaratriði að tryggja jafnrétti til náms.

Eins og ég sagði áðan eigum við væntanlega áframhaldandi umræðu um þetta mál á morgun og við skulum bara líta á daginn í dag sem upphitun fyrir það sem við ræðum um frekar á morgun.