135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

umræður um störf þingsins og utan dagskrár.

[14:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel fullt tilefni til að segja örfá orð um fundarstjórn á fundi sem þessum þegar þrjú ólík mál koma til umfjöllunar undir þessum nýja fasta lið, Störf þingsins. Það er auðvitað með ólíkindum, hæstv. forseti, að utandagskrárumræðurnar skuli hafa þurft að víkja fyrir þessum nýja lið því að hér höfum við rætt þrjú mikilvæg mál sem eðlilegt væri að taka til almennilegrar utandagskrárumræðu. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að þinginu sé stýrt þannig að utandagskrárumræður séu ekki að deyja á einhverjum biðlista eftir því að fá að komast að en í staðinn sé alltaf pláss fyrir umræður sem erfitt er að stýra eins og í morgun. Við erum að tala um þrjú mikilvæg mál á hálftíma sem hvert verðskulda í raun og veru sinn hálftíma. Ég hvet hæstv. forseta til að tryggja að mál af þessu tagi komist örar inn á dagskrá þingsins undir liðnum Umræður utan dagskrár.