135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Búrfellsvirkjun.

427. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin. Mér finnst sérstaklega athyglisverð sú niðurstaða hans að framleiðslukostnaðurinn sé ekki nema um 20 aurar á kWst. miðað við þær forsendur sem hann gaf sér. Þetta er ekki fjarri því sem ég hafði nálgast út frá öðrum forsendum. Hann var 60 aurar á kWst. og þá miða ég við að árlegar tekjur væru um 5% af stofnkostnaði. Ég veit að fyrir tveimur árum — ég fékk þær upplýsingar hjá Orkustofnun — var verð Landsvirkjunar við vegg, frá sínum stöðvarvegg, 3,20. Þetta eru kannski tölurnar sem við ættum að horfa á, framleiðslukostnaður upp á 20 aura en söluverð upp á 3,20. Svo bætist dreifingarkostnaðurinn við þetta. Við verðum að gá að því að dreifikerfið er líka afskrifað og uppgreitt að mjög verulegu leyti. Það er verið að selja almenningi raforkuna á miklu hærra verði en þyrfti.

Ég vil setja fram þá skoðun, virðulegi forseti, ekki kannski sem beinharða fullyrðingu, að hlutirnir hafi þróast þannig að Íslendingar hafi boðið stóriðjufyrirtækjum á hverjum tíma raforkuverðið á niðursettu verði frá meira og minna afskrifuðum virkjunum. Það var til þess að ná hagstæðum stóriðjusamningum frá sjónarhóli stóriðjufyrirtækjanna sem Landsvirkjun og ríkið lét hinn lága framleiðslukostnað renna þangað en ekki til almennings.

Ég held að menn verði að skilja í sundur miklu betur en nú er almenna markaðinn og stóriðjuna og gera þá kröfu að stóriðjufyrirtækin borgi framleiðslukostnaðarverð fyrir orkuna en njóti ekki (Forseti hringir.) þess sem almenningur á í raun og veru að njóta.