135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

fjárveitingar til þjóðlegra greina við Háskóla Íslands.

465. mál
[15:05]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér er ljúft og skylt að hlaupa í skarðið í forföllum hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og vil um leið þakka þingmanninum fyrir þessa ágætu fyrirspurn.

Á síðasta kjörtímabili var nokkuð rætt um stöðu íslensku í Háskóla Íslands og reyndar fleiri skyldra greina og sjálfur rakti ég það hér úr ræðustóli hvernig kennslu og starfskröftum í íslenskunni hefði hnignað á svona áratug og jafnvel lengri tíma, sem þá var liðinn.

Á síðasta þingvetri var blessunarlega gripið til aðgerða í þessum málum og séð til þess að í fjárlögum 2007 voru færðar fram 40 millj. kr. til svokallaðra þjóðlegra greina. Hæstv. menntamálaráðherra og fleiri stjórnarsinnar kynntu málið á sínum tíma við almennan fögnuð og hlaut það mikla athygli og hylli.

Nú er komið að því að vita hvað um þetta fé varð og þess vegna spyr Katrín Júlíusdóttir þriggja spurninga um þetta, en í fjárlögum 2007 segir á viðeigandi stað að lagt sé til að „rannsóknarframlög aukist“, með leyfi forseta: „um 40 millj. kr. til að styðja við þjóðlegar greinar við háskólann. Þessar greinar eru m.a. íslenska, íslensk fræði og málvísindi, sagnfræði og íslenskt táknmál,“ þannig að menn viti um hvað er að ræða. Hvort þær eru svo þjóðlegri en aðrar greinar skal ég ekki segja um en eitthvert nafn verður kannski að hafa yfir þær allar.

Í fjárlögum 2008 var þetta ekki endurtekið en vonandi gert eitthvað annað fyrir þessar greinar því að í samningi háskólans og ráðuneytisins um kennslu þar og rannsóknir á árinu 2007 er kveðið á um að ríkið eigi að sjá um að forsendur séu fyrir hendi til að tryggja, með leyfi forseta: „gæði kennslu og rannsókna í greinum sem sérstaka þýðingu hafa fyrir íslenska þjóðmenningu og fræðilega breidd og fjölbreytni í háskólastarfsemi á Íslandi.“

Spurningarnar eru um hvernig þessu fé hefur verið varið, hvaða greinar hafi notið fjárins, hvernig því hafi verið varið í hverri þeirra um sig og hvort ráðherra telji frekari þörf á að styðja þessar greinar í Háskóla Íslands.