135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

niðurstöður vorralls Hafrannsóknastofnunar.

[15:55]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

(Forseti (MS): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tóm til að tala máli sínu.)

Þakka þér fyrir það, virðulegi forseti. Það veitir ekki af að það sé hljóð þegar maður fer í þessi mál hér.

Við ræddum hér í síðustu viku, að mig minnir, um stofnmælingarnar hjá Hafró. Það er svolítið sérstakt, forseti, að það er eins með þetta eins og greiningardeildirnar, efnahagsskrifstofuna og Seðlabankann, að þingheimur hefur á því sínar skoðanir, ef svo má segja, hvernig fræðigreininni vindur fram.

Það er mjög merkilegt, virðulegi forseti, hvað við þingmenn erum miklir fræðimenn hver á sínu sviði í þessum efnum og getum deilt á fræðimannasamfélagið, ekki bara í þessu heldur fjölmörgu öðru. Við hljótum að fagna því sérstaklega, forseti, hvað við þingmenn erum vel að okkur á öllum þessum fjölmörgu fræðisviðum — þá er um þverpólitíska samstöðu að ræða í þeim efnum, hvað þingheimur er góður.

En niðurstaðan er — og ég heyri að þingheimur hlær — eins og hér hefur komið fram og Hafró segir, að stofnmælingin í ár gefa svipaða niðurstöðu og undanfarin ár hvað varðar magn og útbreiðslu. Á sama tíma kemur hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson inn á það að reynslan sýni hins vegar að menn séu nú að velja úr þorskaflanum og brottkast aukist og um leið sé mikið veitt af ýsu og menn séu hálfpartinn í einhverju skrapi.

Það má vel vera að menn ástundi það. Ég vil hins vegar taka undir það sem hér hefur verið sagt, og var sagt síðasta sumar þegar við fórum yfir þessa hluti með háskólann og Hafró, að ef við ætlum að hafa eitthvert haldreipi í tölfræðilegum rannsóknum þá er það Hafró sem gefur línuna og síðan er það ráðuneytisins, og þá þingsins þess (Forseti hringir.) vegna, að koma að úrvinnslu úr slíkum rannsóknum. (Gripið fram í.)