135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[17:27]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er aumkunarvert að hlusta á þingmanninn Ármann Kr. Ólafsson flytja ræðu um að það vanti peninga í verkefni í málefnum barna sem við ræðum hér, á sama tíma og verið er að eyða hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum, til að komast í öryggisráðið.

Utanríkisráðherra er á þeysingi út um allan heim að reyna að fá atkvæði í öryggisráðið svo hún geti skipað einhvern fulltrúa þar. Verið er að skipa sendiherra sem hafa ekkert að gera og annað í þeim dúr. Bruðlið í þjóðfélaginu í hinum ýmsu málefnum er með þeim hætti að hv. þingmaður er bara aumkunarverður þegar hann talar um þessi mál, að ekki sé hægt að eyrnamerkja peninga í þetta. En það er hægt að setja peninga í alls konar vitleysu, alls konar dellu sem hefur verið gerð hér upp á síðkastið vegna þess að fyrir sex mánuðum síðan var allt í svo góðu ástandi. Það var samt ekki gert ráð fyrir því að setja pening í þetta málefni í desember þegar við samþykktum fjárlög fyrir árið 2008, þegar allt átti hér að vera í besta standi og í sögulegu hámarki.

Þetta er bara sorglegt að hlusta á þingmanninn. Það er líka sorglegt að þurfa að svæla þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessa umræðu af því þeir treysta sér ekki til að taka þátt í henni. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þingheimur ræði þessi mál betur en hann hefur gert og tali um hvernig fólk forgangsraðar verkefnum sem kosta peninga.

Það er til fullt af peningum en það þarf bara að raða þeim í rétta röð. Það á ekki að standa í bruðli og vitleysu og eyða peningum í óþarfa bull og þvælu, í ferðalög með þotum (Forseti hringir.) út um allan heim fyrir ráðherra sem eru í einhvers konar útrásarverkefni.