135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

lögreglu- og tollstjóraembættið á Suðurnesjum.

[15:09]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ekkert svar. Engin lausn. Stríð og deilur áfram. Jú, það er rétt, hæstv. dómsmálaráðherra hefur boðað að þetta embætti skuli höggvið upp. Það kom fram á fundi sem við þingmenn kjördæmisins áttum að núna vantar, miðað við áætlaða þörf og aukningu á ferðamönnum og öðru, 200 millj. Ef þetta er höggvið upp er talið að það vanti 400–500 millj. inn í þennan kassa.

Dómsmálaráðherra hefur sett fram stefnu sína. Í sjálfu sér er ekkert við hana að athuga. en hún virðist ekki ganga í gegnum stjórnarflokkana. Það er óánægja bæði í Sjálfstæðisflokknum sem hefur komið fram og einnig í Samfylkingunni og það grasserar óánægja á Suðurnesjum sem beinist gegn þessari ákvörðun. Þessi staða er mjög vond fyrir embættið og fyrir þessa stöðu.

Þetta embætti var sameinað í eitt fyrir 16 mánuðum og hefur skilað gríðarlegum árangri. Hvers vegna, hæstv. forsætisráðherra, skal nú höggva upp og eyðileggja? Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að taka á sig rögg og leysa þetta mál.