135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

frumvarp um lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli.

[15:17]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Núna um helgina upplýsti hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason að frumvarp um breytingu á lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli hefði verið samþykkt í ríkisstjórn.

Þess vegna spyr ég forsætisráðherra hvort frá ríkisstjórninni hafi verið samþykkt þetta frumvarp um breytingar á yfirstjórn tollgæslu á Suðurnesjum en er enn þá óafgreitt í þingflokki Samfylkingarinnar. Samþykktu ráðherrar Samfylkingarinnar frumvarpið í ríkisstjórn? Ef ekki, er þá yfir höfuð um stjórnarfrumvarp að ræða?

Mér finnst nauðsynlegt að þetta komi fram því að, eins og kom fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar, ríkir mikil óvissa bæði hjá Suðurnesjafólki og starfsmönnum lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum sem búa við mikla óvissu. Það er mjög þarft að fá þessi mál á hreint því að það virðist vera einhver óvissa um þau.