135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:43]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er athyglisvert þetta mikla misræmi milli spár fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans þar sem Seðlabankinn dregur upp mun dekkri mynd af horfunum en ráðuneytið og í því sambandi staldra ég m.a. við þessa spá sem kemur fram um þróun húsnæðisverðs. Það er alveg ljóst að ef t.d. spá Seðlabankans gengur eftir um 30% lækkun á húsnæðisverði á næstu tveimur árum mun það auðvitað koma mjög harkalega við fjölmörg heimili í landinu, ekki síst vegna þeirrar þróunar sem hefur verið í vísitölunni og genginu vegna þess að fjölmargir eru með gengistryggð lán. Að því leyti til er þetta mjög alvarlegt mál.

Það er alveg ljóst að þær spár sem hafa birst að undanförnu bæði frá Seðlabanka og fjármálaráðuneyti og reyndar fleirum draga upp mjög dökka mynd af framhaldinu, því miður. Eins og komið hefur fram er fjármálaráðuneytið bjartsýnna en t.d. Seðlabankinn. Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins eru gerðir mjög miklir fyrirvarar og það eru engir smáóvissuþættir sem þar er um að ræða, bæði varðandi alþjóðlega fjármálamarkaði og aðstæður innan lands, þannig að þar eru mjög stórir fyrirvarar.

Hins vegar er það rétt sem kemur líka fram í þjóðhagsspánni að hin sterka staða ríkissjóðs og lífeyrissjóðakerfisins og auðvitað ásamt eðli hagkerfisins til aðlögunar eru styrkleikamerki. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að það er mikilvægt að verja stöðu ríkissjóðs. Þar hvet ég menn til að veita aðhald í ríkisfjármálum.

Eftir stendur spurningin sem ekki var svarað hér áðan: Hvað telur fjármálaráðherra varðandi forsendur fjárlaga? Ég er þeirrar skoðunar að það hljóti að vera ástæða til að fara í gegnum þær og ég geri ráð fyrir að hv. formaður fjárlaganefndar tali hér og ég hlakka til að heyra hvað hann segir um það. Ég met það svo að í ljósi þróunarinnar og horfanna (Forseti hringir.) sé full ástæða til að endurmeta forsendur fjárlaga þessa árs.