135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að full ástæða sé til þess að gefa gaum að þeim rannsóknum sem fara fram í Háskólanum í Reykjavík. Ég er líka sammála því að skoða eigi á hvern hátt megi auka framlag úr opinberum sjóðum til rannsókna í Háskólanum í Reykjavík. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að Háskólinn í Reykjavík sé nú kominn á sama stað og Háskóli Íslands hvað varðar kröfur úr opinberum sjóðum. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni beint heldur sagði að hún vildi breyta því hvernig úthlutað er til rannsókna á Íslandi. Hún vildi meira og minna setja allt féð, eða stóran hluta þess, í samkeppnissjóði. Ég er sammála því að setja megi aukna fjármuni í samkeppnissjóðina en ég vara stórlega við því að sú leið verði alfarið farin, jafnvel ekki 50% — en stór hluti af rannsóknarfé má að mínu mati vera í samkeppnissjóðum.

Við verðum hins vegar að átta okkur á því hversu lítið samfélag okkar er og hversu veikar mjög margar greinar eru. Ég nefni íslensku og norræn fræði. Við getum ekki keppt um eitt eða neitt hér innan lands í þeim efnum. Við eigum bara eina deild, eina háskóladeild, sem kennir íslensku og norræn fræði. Það er í Háskóla Íslands, hugvísindadeild.

Við erum komin út á kaldan klaka í rannsóknarmálum ef við sköpum ekki ákveðið forskot fyrir íslenska menningu, fyrir þær greinar sem eðli máls samkvæmt eru ekki samkeppnisgreinar.