135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:05]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að karpa um það hérna hvort það geti verið að á næstu dögum komi fram undirskriftasöfnun eða upplýsingar um það að meira en helmingur Vestmannaeyinga hafi skrifað undir lista þann sem nú gengur. Ég hef þó síður trúað því að það gerist. Ég held reyndar að það sé ekki alls kostar rétt lýsing að sú undirskriftasöfnun sem þar hefur verið í gangi hafi verið algerlega óskipulögð. En ég legg áherslu á að menn átti sig á að hvor leiðin sem farin er, ný ferjuleið um Bakkafjöru, eða þá að kaupa nýjan Herjólf, að það tekur töluvert langan tíma að undirbúa slíkt.

Ég hef gagnrýnt það að undirbúningur í þessu máli og yfir höfuð forsaga þessa máls undanfarin ár og forsaga þessa máls í hendi þáv. samgönguráðherra, hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, hafi ekki verið með þeim hætti sem ég hefði viljað sjá hana. Því ég hef talið að menn hefðu átt að kanna alla kosti löngu fyrr og miklu ítarlegar áður en ákvörðun var tekin. En nú erum við komin á þann tímapunkt að við getum ekki beðið öllu lengur eftir samgöngubótum til Eyja. Það gæti kostað okkur gríðarlega mikið ef það yrði til þess að rústa byggðinni í Eyjum vegna þess að byggðin er þar þegar í mjög örum samdrætti. Það er mjög alvarleg staða þegar byggð er komin í þá stöðu eins og Vestmannaeyjar eru í dag.