135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er reyndar tengt. En það er rétt sem hér kemur fram að frumvarpið sem hér var mælt fyrir áðan fjallar ekki beint um börn. En það fjallar um að við erum að taka skref í þá átt að nú verður prestum og forstöðumönnum trúfélaga heimilt að staðfesta samvist alveg sérstaklega kjósi þeir að gera það. Þeir geta líka hafnað því. Það er frelsi. En við erum ekki að stíga skrefið til fulls, þ.e. að koma því þannig fyrir að ekki sé gerður neinn mismunur á samkynhneigðum og gagnkynhneigðum varðandi hjónaband eins og mörg önnur ríki hafa gert.

Ég spurði sérstaklega um uppalendahlutverkið af því það er það atriði sem kirkjan hefur dregið helst fram í röksemdafærslunni gegn því að prestum og forstöðumönnum trúfélaga verði veitt heimild til að vígja samkynhneigða í hjónaband, sem sagt að hafa þá engan mun lagalegan á hjónabandi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra, þ.e. þá full réttindi og engan mismun.

Ég fagna því sem kom hér fram hjá hæstv. forsætisráðherra sem sagði að það væri persónubundið hvernig uppalendur foreldrarnir væru en það færi ekki eftir kynhneigð. Ég tel að það sé algjörlega skýrt að samkynhneigðir geta alið börn afar vel upp og það að nota uppeldi barna og svo þennan kynferðislega mun á körlum og konum sem sérstök rök gegn því að stíga skrefið til fulls og heimila trúfélögum að vígja samkynhneigða í hjónaband standist ekki.